Skip to main content

Golfvöllur í landi Eyvindarár ekki vænlegur kostur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. feb 2022 09:22Uppfært 02. feb 2022 09:23

Sú framtíðarstaðsetning á nýjum golfvelli sem forsvarsmenn Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs sáu fyrir sér skammt utan Egilsstaða í landi Eyvindarár gengur sennilega ekki upp. Nú er skoðað hvort svæði við Eiða komi til greina.

Það er mat byggðaráðs Múlaþings sem tók í vikunni fyrir ósk golfklúbbsins um nýtt land undir golfvöll til framtíðar.

Klúbburinn alla tíð verið með starfsemi á Ekkjufelli í Fellabæ en þar þykir leiguverð of hátt og eins er ókleift að stækka þann völl frekar en þegar er. Forsvarsmenn gældu við að sveitarfélagið sæi mögulega af landi örskammt frá byggð á Egilsstöðum til að hanna og byggja völl til framtíðarinnar.

Byggðaráð telur hins vegar að það sé ekki vænlegur kostur og vísar þar til áherslna í skipulagi og mikillar óvissu varðandi vegtengingar vegna Fjarðarheiðagangna.

Ráðið telur hins vegar að skoða eigi hvort svæði á Eiðum sé heppilegra undir golfvöll og felur sveitarstjóra að ræða við landeigendur þar hvort flötur sé á slíku.