Skip to main content

Gott ár hjá Síldarvinnslunni: 260 þúsund króna launauppbót til starfsmanna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. des 2010 16:13Uppfært 08. jan 2016 19:22

svn_logo.jpgSíldarvinnslan hf. hefur ákveðið að greiða föstum starfsmönnum sínum í landi 260 þúsund króna launauppbót í næstu viku. Með þessu er þeim þakkaður góður árangur fyrirtækisins á árinu sem er að líða.

 

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Síldarvinnslan sendi frá sér í dag. Þar segir að fyrirtækið hafi áður greitt starfsmönnum sínum 100 þúsund króna uppbót þannig að uppbætur umfram samninga nemi orðið 360 þúsund krónum á árinu.

„Það hefur verið mikil vinna á árinu hjá okkur þar sem allir hafa lagst á eitt við hámörkun verðmæta úr þeirri auðlind sem við höfum aðgang að. Með þessum greiðslum viljum við leyfa starfsmönnum okkar að njóta þess árangurs sem þeir hafa náð með okkur á árinu,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að aldrei hafi verið unnið jafn mikið af uppsjávarfiski til manneldis og í ár þótt Síldarvinnslan hafi þurft að laga sig að samdrætti í móttöku fiskimjölsverksmiðja.

Framtíðin er samt óráðin. Aflaheimildir skerðist á næsta ári og óvissa sé um makrílveiðar. Fyrirtækið hafi samt náð að aðlaga sig að sveiflum í aflaheimildum og breytingum á mörkuðum.

„Við erum sífellt að auka verðmæti þess afla sem berst að landi hjá okkur og gera meira úr þeirri auðlind sem við höfum aðgang að, okkur og þjóðinni til framdráttar.“