Gott veður flýtir ljósleiðaravæðingu í Fjarðabyggð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. maí 2025 14:21 • Uppfært 16. maí 2025 14:27
Framkvæmdir við tengingar ljósleiðara í Fjarðabyggð ganga vel og gott veður hefur flýtt fyrir. Lokið er við að tengja öll hús á Breiðdalsvík. Vinna á fleiri stöðum er í gangi eða hafin.
Á mánudag verður lokið við að tengja 16 staðföng á Fáskrúðsfirði, af 108 sem framkvæmdaleyfi gildir fyrir. Á fimmtudag verður byrjað á fyrsta fasa tenginga á Stöðvarfirði og þeim seinni þriðjudaginn 27. maí. Þar þarf að tengja 104 staðföng en þau voru 58 á Breiðdalsvík.
Í Neskaupstað er verið að undirbúa tengingar með skoðun húsa. Í tilkynningu frá Mílu eru Norðfirðingar hvattir til að taka vel á móti húsaskoðunarfólki þannig að framkvæmdir gangi sem best fyrir sig. Þar eru umfangsmestu framkvæmdirnar í ár, tengd verða 284 staðföng. Miðað við framkvæmdaáætlun er reiknað með að vinnan gangi hratt fyrir sig.
„Gott veður hefur sannarlega liðkað vel fyrir framkvæmdum og við finnum mikinn meðbyr hjá íbúum. Það er ánægjulegt að sjá hversu vel samfélagið tekur í þessa uppbyggingu. Ljósleiðari Mílu er tenging til framtíðar sem veitir heimilum og atvinnurekstri mikilvægar grunnstoðir sem styrkir samfélag Fjarðabyggðar,“ er haft eftir Grétari Ómarssyni, verkefnastjóra hjá Mílu.
Hversu mikið góða veðrið hefur flýtt fyrir má meðal annars sjá á gögnum sem fylgja framkvæmdaleyfum sem gefin voru út í mars. Þar var gert ráð fyrir að vinnan á Breiðdalsvík hæfist í júní. Á kynningarfundi um ljósleiðaravæðingu í Fjarðabyggð í október í fyrra var stefnt að tengingum um verslunarmannahelgina.
Á næsta ári er stefnt að því að ljúka við að ljósleiðaraavæða þéttbýliskjarna Fjarðabyggðar að fullu með tengingum á Reyðarfirði og Eskifirði.
Þar sem tengingum er lokið er hægt að panta netþjónustu frá fjarskiptafélögum sem styðja við tengingar um ljósleiðara Mílu.