Skip to main content

Gott veðurútlit um Austurland allt framyfir Verslunarmannahelgina

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. júl 2025 10:12Uppfært 31. júl 2025 10:13

Austfirðingar og gestir munu almennt njóta góðviðris næstu dagana, sólin mun skína að mestu leyti og hæstu hitatölur hoppa milli fimmtán og tuttugu stig.

Miðað við landsspá á þessari stundu er það Austur- og Norðausturhluti landsins sem mun njóta hvað besta veðursins að sögn Einars Sveinbjörnssonar hjá Veðurvaktinni sem heldur úti vefnum Blika.is. Það aðeins snemma á laugardagsmorgunn sem vart verður við rigningu en Einar telur að þær skúrir endist ekki lengur en tvær til þrjár klukkustundir áður en birta fer á ný eftir hádegið þann dag.

Allt að 20 stiga hita

„Ef við miðum við Hérað og þar í kring þá verður ágætis veður á morgun föstudag. Það mun sjást til sólar í hægum sunnanvindi og hitinn gæti komist í þetta átján til nítján stig. Aðfararanótt laugardagsins koma yfir þessi skil og vissulega verður einhver rigning með þeim eins og alltaf gerist. Mér sýnist að helst gæti rignt frá klukkan tíu eða ellefu laugardagsmorgunn og þá svona kringum fimm til átta millimetra. Með þessu verður smá blástur stutta stund en hitinn verður engu að síður kringum þrettán til fjórtán stig. Mér sýnist einungis muni rigna í svona þrjár til fjórar stundir áður en sólin fer aftur að sýna sig eftir hádegið. Það kemur þó smá gola líka með þegar á daginn líður en hitinn ætti að ná fimmtán til sautján stigum þegar best lætur síðdegis á laugardag.

Síðdegisskúrir á mánudag

Einar segir sunnanblástur áfram ráða ríkjum á sunnudeginum og vindurinn geti þá náð sjö til níu metrum þar sem verst lætur en enn meiri hlýindi fylgja með og hitastigið gæti náð allt að tuttugu stigum. Þetta má kalla gott sumarveður þennan sunnudaginn þó vissulega sumum geti þótt napurt þegar vel blæs.

Á Frídegi verslunarmanna á mánudag breytist vindátt austanlands meira í suðvestlæga átt segir Einar.

„Það verður mun hæguri vindur en ég geri ráð fyrir sól fyrri hluta dagsins og hita um fimmtán stigin en svo eru líkur á síðdegisskúrum eins og gjarnan gerist þegar vind tekur að lægja mikið. Þannig að heilt yfir lítur veðrið á Austurlandi bara vel út næstu dagana.“

Sólar mun njóta að mestu leyti framyfir helgina víðast hvar á Austurlandi sem eru góðar fréttir fyrir skipuleggjendur hátíða á borð við Neistaflug í Neskaupstað eða Unglingalandsmóts UMFÍ á Egilsstöðum. Mynd Aðsend