Of mikið álag á mötuneyti Egilsstaðaskóla til að bæta grænkerafæði við
Fjölskylduráð Múlaþings telur ekki hægt að auka umfang grænkera- eða grænmetisfæði í skólum sveitarfélagsins umfram það sem það er í dag.Sveitarfélaginu barst í byrjun mars erindi frá foreldrum sem óskuðu eftir að börnum stæði grænkerafæði til boða í leik- og grunnskólum. Ráðið tók vel í erindið á fundi sínum þá en óskaði eftir frekari upplýsingum um kostnað og umfang.
Að þeirri skoðun lokinni bókaði ráðið að ekki væri hægt að bjóða upp á grænkerafæði í Egilsstaðaskóla vegna umfangs mötuneytisins þar, að svo stöddu, þótt slíkt fæði sé í boði í einverjum skólum sveitarfélagsins.
Guðmundur Björnsson Hafþórsson, fulltrúi Framsóknarflokks, greiddi atkvæði gegn og bókaði að tilraun með grænkerafæði í leikskólum á Héraði til eins árs hugnaðist honum betur en loka alveg á málið.
Eftir upphaflega birtingu fréttarinnar kom fram árétting á orðalagi fjölskylduráðs um að mötuneyti Egilsstaðaskóla sé þegar að anna meiru en það hafi verið hannað fyrir. Aðstæður bjóði ekki upp á að bæta við meiru en upphaflega var áætlað.