Grátt í fjöll á sunnudagsmorgni

Snjóföl mátti sjá á nokkrum stöðum í fjöllum á sunnanverðum Austfjörðum í gærmorgun. Bóndi í Skriðdal segist enn vera bíða eftir heyskapartíðinni.

„Það var grátt í fjöllum hér í gærmorgun og tók ekki upp í gær,“ segir Sigríður Benediktsdóttir á Flögu í Skriðdal.

Á mynd sem Sigríður tók af hlaðinu í Flögu um klukkan níu í gærmorgun má meðal annars sjá vel grátt í Sandfelli, sem teygir sig alls í um 1157 metra hæð. Austurfrétt hefur spurnir af því að víðar hafi verið grátt í fjöll í fjórðungnum í gærmorgun.

Sigríður segir að sumarið sé búið að vera Skriðdælingum erfitt. „Við höfum beðið eftir almennilegri heyskapartíð í allt sumar, eins og allir. Við náðum heyi fyrir sauðburð og fengitíð á góðu dögunum í júlí en annars þá hefur alltaf komið rigning.“

Ekki er fyrir að rætist úr veðrinu í vikunni. Spáð er norðlægum áttum, hita um eða undir tíu gráðum og skúrum eða rigningu.

Mynd: Sigríður Benediktsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.