Greina kyndimöguleika Seyðfirðinga í þaula fram á haustið

Mikil vinna hefur þegar verið unnin af hálfu HEF-veitna, Múlaþings og fleiri aðila að finna góða lausn á áframhaldandi rekstri fjarmvarmaveitu Seyðisfjarðar. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki með haustinu og í kjölfarið verða endanlegar niðurstöður kynntar bæjarbúum.

Sem flestum er kunnugt mun RARIK hætta rekstri fjarvarmaveitu Seyðisfjarðar frá næstu áramótum en það verið í farvatninu um tæplega tíu ára skeið. Ástæðurnar mikil óvissa um framboð á ótryggri orku sem fjarvarmaveitan reiðir sig á og ekki síður að dreifikerfi veitunnar er illa farið og ekki grundvöllur til reksturs þess lengi enn án allsherjar endurnýjunar.

Við því kefli tekur Múlaþing og HEF-veitur fyrir þeirra hönd og undanfarna mánuði ýmis kostir verið greindir með aðstoð ráðgjafa og Orkustofnunar sjálfrar.

Í tilkynningu frá HEF-veitum kemur fram að enn sé unnið að rannsóknum á þeim möguleikum sem til staðar séu og þeirri rannsókn ljúki með haustinu. Íbúum verða kynntar niðurstöðurnar í kjölfarið.

Ýmsar leiðir kannaðar

Hagkvæmni reksturs fjarvarmaveitunnar og orkuverð til notenda veltur á öruggri afhendingu raforku, á viðráðanlegu verði. Trygg raforka er nauðsynlegur liður í því að hætta olíunotkun, sem hefur verið all nokkur undanfarna vetur þegar til skerðinga á afhendingu raforku hefur komið.

Fyrir dyrum standa breytingar á raforkulögum, en þeirri endurskoðun hefur seinkað nokkuð. Fyrir framtíð fjarvarmaveitna á Íslandi er grundvallaratriði að farsæl lending náist í verðlagningu raforku sem og afhendingaröryggi til húshitunar til framtíðar.

Dreifikerfið, sem kyndir upp rúmlega þriðjung bæjarins, er barn síns tíma og ljóst að ráðast þarf í framkvæmdir til að tryggja öryggi og lágmarka orkutap. Að nýta þessa innviði er vilji sveitarfélagsins og getur reynst hagkvæmt að reka kyndistöðina áfram með miðlægri varmadælu sem nýtir orku úr andrúmsloftinu. Að nýta jarðvatn til orkuvinnslu í varmadælu er einnig til skoðunar og er nauðsynlegt að fara í rannsóknarboranir til að fá úr því skorið hvort um raunhæfan kost sé að ræða fyrir Seyðisfjörð. Reynist svo, er líklegt að þar yrði um hagkvæman og umhverfisvænan kost að ræða fyrir miðlæga fjarvarmaveitu. Forsendur fyrir rekstri eru jafnframt þær að raforka sé trygg og því ljóst að áðurnefnd lagabreyting þarf að greiða leiðina fyrir veituna.

Einn þeirra valkosta sem skoðaðir hafa verið er að færa kyndinguna til hvers notanda, með uppsetningu varmadæla eða hitatúpa og leggja niður rekstur kyndistöðvarinnar, sem er vissulega afturför og ekki sú niðurstaða sem vonast er eftir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.