Grettir sterki og Jón Kjartansson komnir til Esbjerg

Dráttarbáturinn Grettir sterki kom til Esbjerg í Danmörku í morgun með fjölveiðiskipið Jón Kjartansson í eftirdragi. Skipin voru tæpa viku frá Reyðarfirði.

Skipin létu úr höfn á Reyðarfirði um kvöldmatarleytið síðasta þriðjudag og komu til Esbjerg snemma í morgun.

Þar mun Jón Kjartansson ljúka ferli sínum því það hefur verið selt í brotajárn. Kaupandinn er Smedegaarden AS, sem kynnir sig á heimasíðu sinni sem eitt fremsta fyrirtæki Evrópu í að skera í sundur skip á umhverfisvænan hátt. Það selur síðan parta úr þeim.

Í færslu frá forstjóra Smedegaarden á LinkedIn segir hann að um borð í Jóni sé öflug vél, sem aðeins hafi gengið innan við 5.000 tíma síðan hún var síðast endurnýjuð. Þá sé um borð í skipinu góður veiðibúnaður sem vel sé hægt að nýta áfram.

Smedegaarden gekk frá kaupunum á Jóni í nóvember 2023 en ekki var veður til að draga skipið yfir hafið fyrr en nú í maí.

Mynd: Gunnar B. Ólafsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.