Gripið til aðgerða vegna grútarmengunar á Eskifirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. júl 2023 16:33 • Uppfært 03. júl 2023 16:35
Hreinsunarstarf gengur vel á Eskifirði eftir að grútarmengun kom upp þar um helgina. Um virðist hafa verið að ræða leifar frá mengunaróhappi í maí. Vinnsla hófst hjá Eskju í morgun á makríl sem veiddist í íslenskri lögsögu.
Í lok maí kom upp grútarmengun sem rakin var til mannlegra mistaka í fiskimjölsverksmiðju Eskju. Sú mengun var hreinsuð upp. Síðan hefur engin starfsemi verið hjá fyrirtækinu.
Um helgina var byrjað að undirbúa makrílvertíðina og sjór tekinn inn í lagnir verksmiðjunnar. Við það virðist hafa skolast út grútur sem setið hafði í lögnunum síðan í vor. Samkvæmt tilkynningu fyrirtækisins var viðbragðsáætlun virkjuð, eftirlitsstofnanir látnar vita og byrjað að hreinsa.
Vonast er til að óveruleg umhverfisáhrif verði að hreinsun lokinni. Um er að ræða lífrænan úrgang sem inniheldur fitubrák sem skapar sjónmengun og getur haft áhrif á fugla. „Þetta á ekki að gerast og er óheppilegt en hreinsunin gengur vel,“ segir Páll Snorrason, fjármálastjóri Eskju.
Vinnsla hófst hjá Eskju í morgun þegar Jón Kjartansson kom með 800 tonna afla, makríl í bland við síld. Íslensku uppsjávarveiðiskipin héldu í Smuguna undir lok júní til að veiða makríl. Skip Eskju voru með þeim seinni, héldu út á föstudag og náði Jón sínum afla innan íslensku lögsögunnar.
Páll segir mikla síld innan um það makríl sem er í íslensku lögsögunni og því séu önnur skip félagsins að leita meðfram landhelgislínunni milli Íslands og Færeyja.
Grútur í fjörunni á Eskifirði í lok maí. Mynd: Aðsend