Grunnskólanemendur á Borgarfirði krefjast betra leiksvæðis

Það ekki ýkja algengt að grunnskólanemendur taki sig til og sendi áskorun til ráðandi afla í fámennum bæjum eða þorpum. Það gerðu þó eldri nemendur í grunnskólanum á Borgarfirði eystri nýverið sem vilja stórbætt leiksvæði við skólann sinn.

Það kom í hlut heimastjórnar svæðisins að taka bréf nemendanna fyrir á síðasta fundi en í viðbót við áskorun um að leikaðstaða við grunnskólinn verði bætt til muna fóru þau einnig fram á leyfi til að setja upp náttúruverndarskilti víðs vegar í þorpinu fyrir sumarið.

Tinna Jóhanna Magnúsdóttir, deildarstjóri skólans, segir nemendurna alfarið sjálfa hafa komið fram með þá hugmynd að skora á heimastjórnina að færa leiksvæði skólans til betri vegar.

„Hér er í rauninni ekkert leiksvæði fyrir eldri nemendur skólans sem komnir eru á unglingastig. Hér auðvitað leikskólalóð en fyrir þá sem eldri eru þá þarf meira til og ábendingar voru sérstaklega um rólur fyrir eldri börnin og hugsanlega skólahreystisbraut. Hér er nánast ekkert fyrir þau að hafa fyrr en vora fer og hægt verður að nota ærslabelginn sem hér er nálægt. Yngri börnin auðvitað taka undir með þeim eldri í þessum kröfum enda myndi það gagnast þeim öllum. Okkur kennurunum hugnast þetta vel því við viljum auka kennslu utandyra og ekki síður hvetja almennt til aukinnar hreyfingar og útiveru.“

Heimastjórn Borgarfjarðar eystri fyrir sitt leyti tók vel í áskorun nemendanna og hyggst beita sér fyrir að fjölga leiktækjum og bæta aðstöðuna við skólann. Þá var jafnframt gefið grænt ljós á uppsetningu umhverfisverndarskiltanna af þeirra hálfu. Nemendurnir eru að sögn Tinnu nú að útfæra hvernig skiltin eiga að líta út.

„Grunnskólinn er Grænfánaskóli og umhverfismennt er kennd samkvæmt stundarskrá svo nemendurnir eru mjög vel að sér um nauðsyn þess að ganga vel um náttúruna. Þar er verið að horfa til þess að koma þeim fyrir við fjöruna og Álfaborg og á slíkum stöðum og bara minna gesti á að náttúran er einstök og fara verði vel með hana.“

Fátt heillar utandyra við grunnskóla Borgarfjarðar eystri fyrir eldri nemendur skólans yfir vetrartímann. Skora þau á heimastjórnina að bæta þar úr hið fyrsta. Mynd Borgarfjarðarskóli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.