Grunur beindist strax að þeim handtekna

Grunur lögreglu beindist strax að manni sem er í haldi lögreglu í tengslum við andlát hjóna á áttræðisaldri í Neskaupstað í dag. Eftirgrennslan lauk með handtöku hans um einum og hálfum tíma eftir að hún hófst.

Klukkan 12:35 í dag var lögreglunni á Austurlandi tilkynnt um tvo látna einstaklinga, hjón á áttræðisaldri, í íbúðarhúsi í Neskaupstað. Aðstæður á vettvangi bentu til saknæms athæfis.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, segir að aðilar hafi verið farnir að undrast á því að ekki næðist í hjónin og farið til að kanna af hverju. Þeir hringdu síðan í Neyðarlínuna.

Grunur beindist strax að ákveðnum einstaklingi sem var handtekinn um klukkan 14 í Reykjavík. Staðfest hefur verið að honum var veitt látlaus eftirför eftir að bíll sem hann var á sást í Reykjavík. Hann var síðan handtekinn með aðstoð sérsveitar.

Kristján Ólafur segir að eftirgrennslanin hafi farið strax af stað í kjölfar þess að lögregla kom á vettvang í Neskaupstað. Grunur beindist að einstaklingnum sem væri á ferð í ákveðnum bíl. Hann var handtekinn í kjölfar þess að bíllinn fannst.

Maðurinn hefur síðan verið í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknarinnar. Kristján Ólafur segist ekki geta staðfest stöðu skýrslutöku af manninum, til að mynda hvort fyrir liggi játning. Gert er ráð fyrir að gæsluvarðhalds verði krafist yfir manninum.

Aðspurður segir Kristján Ólafur ekki hafa nákvæmar upplýsingar um tengsl mannsins við hjónin. Í það minnsta sé ekki um að ræða náin fjölskyldubönd.

Vettvangsrannsókn stendur enn yfir. Við hana nýtur lögreglan aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og réttarmeinafræðings. Kristján Ólafur segir að á þessu stigi sé ekki hægt að segja til um hvaða vopni hafi verið beitt en rannsóknin leiði það væntanlega í ljós. Tímasetning atburðarinnar er heldur ekki ljós.

Við eftirgrennslanin naut lögreglan á Austurlandi aðstoðar þriggja lögregluembætta, á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Suðurnesjum, sérsveitar Ríkislögreglustjóra og þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar. Í kjölfar atburðarins veitti lögreglan á Norðurlandi eystra einnig aðstoð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.