Grunur um að hestur hafi verið skotinn í girðingu í Eiðaþinghá
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. okt 2023 10:53 • Uppfært 24. okt 2023 10:53
Lögreglan á Austurlandi rannsakar dánarorsök hests sem fannst dauður í girðingu í landi Glúmsstaða í Eiðaþinghá um helgina. Ummerki benda til þess að dýrið hafi verið skotið. Eigandi hestsins segir atburðinn uggvænlegan.
„Hann virðist hafa verið skotinn eða stunginn og allt bendir til þess að hann hafi verið skotinn. Það virðist vera kúlnafar á honum. Veiðimenn segja okkur að gatið sé það stórt að þetta líkist helst því þar sem kúlan fer út.
Við höfum ekki fundið neina kúlu svo það er ekki ljóst hvort þetta hafi verið skot í gegn. Innskotið getur verið lítið og hann lá á þeirri hlið. Að minnsta kosti fór eitthvað inn í hestinn sem skaddaði hjarta eða slagæð og sennilega hefur honum blætt út innvortis í kjölfarið.
Það rigndi um helgina þannig það var enginn blóðpollur á staðnum heldur hefur það farið beint niður í jörðina. En ef hesturinn fer afvelta þá reynir hann að koma sér aftur á fætur með sparki þannig að umhverfið rótast upp og hann verður skítugur. En hann var hreinn og umhverfið heilt.“
Þetta segir Marietta Maissen sem á hestinn ásamt manni sínum Pétri Behrens. Þau hafa verið með hesta í girðingu í landi eyðibýlisins Glúmsstaða, um 8 km utan við Egilsstaði. Hún telur atburðinn hafa átt sér stað á föstudag því allir hestarnir hafi verið á sínum stað daginn áður. Þegar hesturinn sást ekki á föstudag var farið að grennslast um og fannst hesturinn fyrir hádegi á laugardag.
Áverkinn líkist skotsári
Marietta segist ekki vilja trúa því að verknaðurinn hafi verið skipulagður en áverkarnir bendi til þess að ekki hafi verið um slysaskot að ræða. „Veiðimenn segja að þetta væri einkennilegt slysaskot með farið rétt neðan við herðablaðið. Þetta er líka nærri vegi auk þess sem enginn á að skjóta þarna nema með leyfi landeiganda og það lá ekkert fyrir.“
Atvikið var strax tilkynnt til lögreglu. Þar fengust þær upplýsingar að farið líkist skotáverka. Ekki sé hægt að slá því föstu enn en beðið er skýrslu dýralæknis sem skoðaði dýrið. Eftir að hún liggur fyrir verði hægt að meta næstu skref í málinu.
Hesturinn var 12 vetra geldingur undan verðlaunahryssu. Marietta segir verðmæti hestsins ekki aðalmálið heldur sé ógnvænlegt að ganga í gegnum að dýr virðist drepin af handahófi. „Við stundum hrossarækt og tamningar og það er skelfilegt að upplifa svona árás. Hún gerir mann órólegan þannig maður fer að fylgjast meira með dýrunum.“
Engar frekari vísbendingar liggja enn fyrir málinu. Þeim, sem geta gefið nánari upplýsingar, er bent á að hafa samband við lögregluna á Austurlandi í síma 444-0600 eða á netfangið
Myndir: Aðsendar
