Skip to main content

Eldislax fannst í Fjarðará árið 2021

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. ágú 2025 15:00Uppfært 21. ágú 2025 15:02

Eldislax fannst í Fjarðará í Seyðisfirði árið 2021 sem virðist hafa sloppið úr kví forvera Kaldvíkur í Reyðarfirði. Líffræðingar óttast að eldislax í íslenskum laxveiðiám sé vantalin.


Greint er frá eldislaxinum í skýrslunni „Uppruni sjókvíaeldislaxa í ám á Vestfjörðum og Austfjörðum 2015-2022,“ sem kom út í mars. Skýrsluhöfundar eru líffræðingarnir Jóhannes Sturlaugsson og Snæbjörn Pálsson sem árlega hafa rannsakað hrygningar eldislaxa hérlendis.

Þar kemur fram að árið 2021 hafi eldislax veiðst í Fjarðarár og uppruni hans verið rekinn í kví á eldissvæðinu Gripalda í Reyðarfirði, rúmlega 70 km í burtu. Um er að ræða seiði sem sleppt var í sjó vorið 2020. Bent er á að sama ár og laxinn fannst hafi sjúkdómurinn blóðþorri, sem sprettur frá ISA-veiru, greinst í Reyðarfirði. Þess vegna sé mögulegt að laxinn hafi borið hana með sér. Slátra þurfti fiskum úr Reyðarfirði vegna sjúkdómsins. Seiði eru nú bólusett við honum.

Óttast að sleppingar séu vantaldar


Skýrsluhöfundarnir telja hins vegar að þessi lax sé dæmi um stærra vandamál, sem sé að fiskar sleppi án þess að það uppgötvist eða sé tilkynnt. Þeir telja sig hafa fundið merki um 11 slysasleppingar en upplýsingar vanti um meira en helming þeirra. Ekki sé hægt að skýra meiri fjölda eldislaxa á annan hátt en með fleiri slysasleppingum en þeim sem þekktar eru. 

Þess vegna óttast þeir að fjöldi þeirra eldislaxa sem ganga upp í laxveiðiár sé vanmetinn, sem aftur eykur áhættu á erfðablöndun. Jóhannes og Snæbjörn vara við að hvers konar afkvæmi eldislaxa eigi minni möguleika á að lifa af í náttúrunni en hreinræktaður villtur lax, auk þess sem sú lykt sem eldislaxar gefi frá sér kunni að laða fleiri að.

Þeir benda bæði á að seiði, sem sleppa úr eldi, geti vaxið og orðið kynþroska og að athuganir í ám byggi aðallega á veiðitölum en hætta sé á að eldislax komi upp í ár eftir veiðitímabil. Þeir vara einnig við að hrygningar arfhreinna eldislaxa séu vanmetnar.

Telja fiska hafa sloppið frá öllum helstu eldissvæðum


Jóhannes og Snæbjörn vonast til að rannsóknir þeirra bæti ákvarðanatöku um eldi, allt frá rannsóknum til leyfisveitinga. Þeir segja að í rannsókninni hafi fundist laxar frá öllum helstu sjókvíaeldissvæðum við Ísland sem sýni í hnotskurn vanda villta íslenska laxastofnsins.

Eldið í Reyðarfirði var árið 2021 rekið undir merkjum Laxa fiskeldi sem síðar sameinaðist Fiskeldi Austfjarða og varð að Kaldvík. Talsmenn Kaldvíkur hafa til þessa sagt að enginn fiskur hafi sloppið úr eldi á Austfjörðum. Ekki fengust svör við fyrirspurnum Austurfréttar við vinnslu fréttarinnar, þrátt fyrir ítrekanir.