Grútur enn að leka út í sjó á Eskifirði en menn fljótir til hjá Eskju
Þrátt fyrir að lögn frá fiskbræðslu Eskju á Eskifirði hafi verið þrifin og skrúbbuð eins og frekast var unnt eftir að grútarmengunar varð vart í firðinum seint í maímánuði lak meira út fyrr í vikunni. Að þessu sinni voru menn tilbúnir og þegar búið að hreinsa það allt upp.
Að sögn Hauks Jónssonar, rekstrarstjóra mjöl- og lýsisvinnslu Eskju, var leka vart á þriðudaginn var en ólíkt því sem gerðist í maí þá fregnaðist það umsvifalaust og búið var að koma fyrir mengunargirðingu skömmu síðar.
„Góðu heilli sást þetta strax og hér voru tilbúnar girðingar til öryggis þannig að það náðist að koma fyrir þetta á skömmum tíma og það búið að ná öllu upp núna. Við ætlum samt til öryggis að hafa girðinguna áfram hér næstu dagana og fylgjast vel með áfram.“
Enn er ekki búið að ganga endanlega úr skugga um hvaðan grúturinn kemur en engin vinnsla hefur verið í bræðslunni vikum saman auk þess sem farið var í verulegar hreinsunaraðgerðir í kjölfar mengunarinnar í maí. Lögnin frá bræðslunni tengist inn á bæjarlögn Eskifjarðar áður en út í sjó er komið og vitað er að sú lögn er í slæmu ásigkomulagi.
Haukur vill ekki meina að vandamálið tengist bæjarlögninni en menn furði sig á hvaðan nákvæmlega þessi grútur kemur. Aðspurður hvort ekki þurfi að mynda lagnirnar til að fá endanlega úr því skorið segir hann það ekki endilega einfalt en eitt af því sem skoðað verði.
Hjá Fjarðabyggð var kallað eftir úrbótaáætlun frá Eskju í kjölfarið strax og mengunar varð vart í maí og er sú áætlun í vinnslu. Þá var jafnframt kallað eftir viðbragðsáætlun allra sjávarútvegsfyrirtækja í sveitarfélaginu vegna slíkra mengunarslysa. Haraldur Haraldsson, upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar, segir Austurfrétt að þær áætlanir eigi að vera tilbúnar með haustinu.
Grútur dreifðist víða um fjörur Eskifjarðar í maí en að þessu sinni tókst að koma í veg fyrir útbreiðslu. Mynd aðsend