Guðný Lára stefnir á þriðja sætið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. feb 2022 16:54 • Uppfært 09. feb 2022 16:54
Guðný Lára Guðrúnardóttir, ljósmyndari og laganemi á Seyðisfirði, gefur kost á sér í þriðja sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi sem haldið verður 12. mars.
Guðný Lára er þrítug og hefur búið mest alla sína ævi á Seyðisfirði. Hún er gift Skúla Vignissyni, framkvæmdastjóra MSV á Egilsstöðum. Þau eiga tvö börn, Kjartan Berg og Vöku. Á heimilinu er einnig kötturinn Oliver sem gleður heimilisfólkið.
„Sem móðir barna á leik- og grunnskóla aldri hef ég mikinn metnað fyrir því að gera umhverfi þeirra og starfsumhverfi skólanna enn betra. Mikilvægi íþrótta- og tómstundastarfs verður seint ofmetið. Ég hef komið að foreldrafélagi leikskólans á Seyðisfirði og setið þar sem formaður,“ segir í tilkynningu frá Guðnýju Láru.
„Ég er nú á síðasta ári við lagadeild Háskólans á Akureyri. Í HA er lögð mikil áhersla á alþjóðlega nálgun sem og umhverfis og mannréttinda lögfræði og kemur það sterkt inn á áhugasvið mitt, ég læt umhverfismál mig miklu skipta.
Samhliða því er ég brúðkaups-, fjölskyldu-, og ungbarna ljósmyndari og fæ útrás fyrir sköpunarkraftinum á því sviði og veit frá gefinni reynslu hversu mikilvægt lista og menningarstarf sveitarfélagsins er.
Seyðisfjörður er þekktur fyrir fjölbreytt menningarlíf og það er mitt mat að standa þurfi vörð um það ásamt því að efla þá starfsemi í öllu sveitarfélaginu okkar. Eins og flest okkar vita getur öflugt tómstunda og menningarstarf virkað sem öflugt forvarnarstarf fyrir ungmennin okkar.
Sem háskólanemi þekki ég það frá eigin reynslu að hafa nokkrar áhyggjur af atvinnumálum í sveitarfélaginu, ég vil geta komið úr skóla og unnið við það sem ég hef verið að læra. Að tryggja blómstrandi atvinnulíf er forsenda þess að fólk flyst ekki í burtu eftir nám. Við viljum sjá uppbyggingu í atvinnulífinu því hér er gott að búa.
Með ykkar stuðningi vonast ég til þess að nýta krafta mína fyrir sveitarfélagið okkar í komandi framtíð.“