Guðrún Smáradóttir: „Öðruvísi að fara heim til sín undir pressu“
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. mar 2023 19:09 • Uppfært 28. mar 2023 19:52
Guðrún Smáradóttir í Neskaupstað er meðal þeirra sem þurftu að rýma hús sitt í gær vegna snjóflóðahættu. Íbúar fengu í dag að fara heim til að sækja nauðsynjar en var til þess sniðinn þröngur stakkur. Hún segir bæjarbúa þakkláta fyrir að ekki hafi verr þegar snjóflóð féll á fjölbýlishús þar í gærmorgunn.
„Fólk er mjög slegið en allir eru þakklátir fyrir að þetta fór eins vel eins og hugsast gat því það varð ekkert manntjón. Það er gæfan sem allir eru að tala um,“ segir Guðrún Smáradóttir, íbúi í Neskaupstað.
„Ég fór aðeins í fjöldahjálparmiðstöðina í Egilsbúð í dag. Þar var ekki margt fólk þegar ég kom. Síðan borðuðum við á Hildibrand eins og fleiri og hitti þar meðal annars fólk sem hafði lent illa í þessu. Atburðirnir höfðu sjáanlega fengið mikið á þau,“ bætir hún við.
Snjóflóðið lenti fyrst og fremst á tveimur fjölbýlishúsum við götuna Starmýri. Guðrún býr hins vegar í Valsmýri, aðeins utar. „Það kom póstur frá skólanum um að öll kennsla félli niður þannig ég fór aftur upp í rúm. Síðan vakna ég við að systir mín, sem býr á Selfossi hringir. Þá eru fregnir af snjóflóðinu komnar í fjölmiðla. Ég og maðurinn minn höfðum því ekki langan tíma til að koma okkur út.
Hann hafði fengið SMS frá almannavörnum en ekki litið á símann sinn. Ég fékk ekkert skeyti. Ég veit ekki af hverju en það virðast hafa verið gloppur í kerfinu því ég hef heyrt af fleira fólki sem ekkert fékk.“
Erfitt að koma inn í Egilsbúð
Við rýminguna var fólki safnað saman í fjöldahjálparmiðstöð í félagsheimilinu Egilsbúð. Guðrún vann þar í fjöldamörg ár en þótti erfitt að koma þangað í gær því sú stund ýfði hjá henni eins og fleirum upp minningar úr snjóflóðunum í desember 1974.
„Ég átti þá heima innst í bænum við gamla frystihúsið að Strandgötu 72. Það féllu snjóflóð innan og utan við okkur. Fyrst féll flóðið innan við okkur og þá fengum við símhringingu um að við yrðum að fara úr húsinu. Þegar við komum út þá var flóð fallið utan við okkur. Ég var þarna átta ára gömul og við þurftum að fara yfir snjóflóðið.
Ég hefði ekki trúað hvað þetta situr í manni, ég átti hræðilegan dag í gær. Ég er viss um að fullt af fólki sem hefur eins og ég endurupplifað þá atburði á einhvern máta.
Við flúðum inn í Egilsbúð 1974. Þess vegna var erfitt að fara þangað í gær. Egilsbúð er uppáhalds húsið mitt í bænum en ég fór ekki þangað inn með sömu tilfinningu og venjulega. Ég veit samt að fara þangað var það besta sem hægt var að gera.“
Vart heim fyrr en um helgina
Í dag hefur hluta rýminga verið aflétt, þó ekki á Valsmýrinni þar sem Guðrún býr. Áfram er spáð snjókomu næstu daga og viðbúið að afléttingum verði ekki aflétt. „Við reiknum með að fara heim mögulega á föstudag eða laugardag. Ég held að það sé öruggt að við verðum tvær nætur í viðbót að heiman. Þetta er óþægilegt því auðvitað finnst öllum best að vera heiman. Hin daglega rútína er brostin og ég trúi að það trufli fólk. Það er allt öðruvísi þótt maður eigi yndislega vini því maður er alltaf gestur. Margt fólk er hjá vinum og ættingjum en svo líka á hótelinu og heimavist Verkmenntaskólann. En síðan var fullt af fólki sem opnaði húsin sín til að taka á móti öðrum.“
Vegna þessa voru íbúar hvattir til að nota tækifæri og fara í hús sín í dag til að sækja nauðsynjamuni fyrir næstu daga. „Við fengum að fara inn á svæðið en það mátti bara einn fara í hvert hús. Við þurftum að skrá okkur og þá fengum við snjóflóðaýlur til að setja í okkur. Síðan reyndum við að hópast saman úr sömu götu í bíla til að spara ferðir. Við fórum með björgunarsveitarbílum og það voru bara tveir á ferðinni í einu, annar í Bakkahverfi hinn í Mýrahverfi. Þess vegna var þetta mikið þolinmæðisverk. Síðan fór maður inn til að ná í dót og vonaðist til að koma aftur út með það sem þyrfti því það var reynt að stoppa sem styðst á svæðinu. Það er öðruvísi að fara heim til sínu undir þessari pressu.“
Ýtir vonandi við síðasta varnargarðinum
Aðfaranótt mánudags moksnjóaði og hefur haldið áfram síðan. „Það er óvenjumikill snjór og víða bílar á kafi. Samt eru snjóruðningstæki stanslaust á ferðinni. Það virðast öll snjósöfnunarsvæði vera orðin smekkfull.“
Bæjarbragurinn er af ýmsum völdum nokkuð sérstakur. „Það má vera á ferðinni á svæði í miðjum bænum. Við eins og margt annað fólk erum bíllaus og það er erill á neðstu götunni, margt fólk að fara fótgangandi til og frá versluninni.“
Á undanförnum árum hafa varnargarðar verið byggðir upp fyrir ofan Neskaupstað en þó ekki enn á því svæði sem snjóflóðið féll á í gær. Frumhönnun liggur fyrir en framkvæmdin er ótímasett. „Fólk er slegið yfir að flóðið hafi komið á þessum stað sem síst var von. Það er ástæða fyrir því að garðarnir þarna voru síðastir í röðinni. Eins kemur það illa við að ekki hafi verið rýmt fyrr, það hefur hálfpartinn verið viðurkennt í fjölmiðlum að það hefði átt að gera fyrr. Vonandi ýtir þetta við að við fáum síðasta varnargarðinn.“
Guðrún segir Norðfirðinga ákveðna í að styðja hvern annan á erfiðum tímum og þakklætið í garð viðbragðsaðila sé mikið. „Samhugurinn er ótrúlegur. Síðan er það fólkið frá Rauða krossinum og björgunarsveitunum sem vinnur og vinnur. Það er dýrmætt að eiga svona fólk. Vinkona mín sagði við mig þegar við sátum niður í Egilsbúð að nú þyrftum við að huga að því að ganga í svona félagsskap. Börnin væru flutt að heiman þannig við hefðum tíma. Mögulega er það rétta hugsunin.“