Gul viðvörun í gildi vegna hvassviðris

Gul viðvörun vegna hvassviðris á Austfjörðum tók gildi á miðnætti. Yfir 50 m/s hviða mældist í Hamarsfirði í morgun. Að auki hefur rignt mikið á svæðinu og meira að segja fallið slydda til fjalla.

Viðvörunin gildir til klukkan átta í fyrramálið. Á þessum tíma er búist við norðvestan 15-20 m/s með hviðum upp á allt að 35 m/s. Búist er við að hvassast verði syðst á svæðinu.

Íbúum er ráðlagt að huga að lausamunum auk þess sem aðstæður geta verið varasamar fyrir stór ökutæki eða þau sem eru með aftanívagna. Sambærileg viðvörun er í gildi á Suðausturlandi.

Um klukkan hálf átta í morgun mældist 53,4 metra hviða í Hamarsfirði. Þar er meðalvindur kominn í 28 m/s. Hvasst er í nágrenninu sem og fjallvegum, svo sem Vatnsskarði og Öxi þar sem meðalvindhraði er yfir 20 m/s.

Síðan í gærkvöldi hefur líka rignt hraustlega víða á svæðinu. Frá miðnætti er úrkoma mest á landinu á Borgarfirði, 30 mm. Slydda hefur fallið til fjalla og krapi var til dæmis á veginum yfir Fjarðarheiði í morgun. Samkvæmt kerfum Veðurstofunnar eru hálkublettir þar, á Vatnsskarði, Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði.

Almennt dregur úr úrkomunni í kringum hádegið þótt hún virðist halda áfram á Vopnafirði og nyrst á Austfjörðum. Seinni partinn bætir aftur í annars staðar.

Á sunnudag er síðan spáð um 20 stiga hita og sól.

Mynd úr safni, tekin af Ómari Bogasyni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.