Gul viðvörun vegna norðan hríðar
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun vegna norðan hríðar fyrir veðurspásvæðið Austurland að Glettingi.Viðvörunin tekur gildi klukkan sex í dag, fimmtudag og gildir fram til miðnættis annað kvöld. Spáð er norðan 13-18 m/s með rigningu eða slyddu og þá snjókomu til fjalla.
Líklegt er að færð, einkum á fjallvegum á norðanverðu svæðinu svo sem Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði, spillist. Viðbúið er að snjókoman verði töluverð yfir nokkurn tíma.
Á láglendi eru meiri líkur á rigningu eða slyddu. Útlit er fyrir að talsverður hitamunur geti verið á milli svæða á Fljótsdalshéraði á morgun sem aftur ræður því í hvaða formi úrkoman fellur.
Veðrið á að ganga niður aðfaranótt laugardags. Á morgun verður metið hvort ástæða sé til að lengja viðvörunina inn í nóttina.
Á Austfjörðum er spáð norðvestan 10-15 m/s og rigningu eða slyddu í kvöld sem breytist í snjókomu þegar kólnar. Á morgun er spáð norðvestan 13-20 m/s og snjókomu eða slyddu. Hiti verður um frostmark og hvassast syðst.
Ekki hefur enn verið gefin út viðvörun fyrir þar svæði. Talið er að snjókoman verði minni þar því fjöllin haldi úrkomunni úr norðri frá.