Gul viðvörun vegna úrkomu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. sep 2025 16:38 • Uppfært 08. sep 2025 16:41
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir veðurspásvæðin Austfirði og Suðausturland vegna mikillar úrkomu næstu daga. Varað er við aurskriðum og flóðum.
Viðvaranir fyrir bæði svæði gengu í gildi klukkan 16:00 í dag og gilda til sex í fyrramálið fyrir Suðausturland en til hádegis fyrir Austfirði.
Áfram er þó gert ráð fyrir mikilli úrkomu. Samkvæmt korti frá Veðurstofunni, sem sýnir úrkomu frá mánudagsmorgni til fimmtudagsmorguns, uppsafnað yfir 72 tíma, er gert ráð fyrir um eða yfir 200 millimetra úrkomu í Austfjarðafjallgarðinum frá Álftafirði til Fáskrúðsfjarðar. Á austanverðum og suðaustanverðum Vatnajökli fer úrkoman í yfir 300 mm.
Veðurstofan varar því við auknu rennsli í ám sem skapar hættu á flóðum. Þetta eykur líka áhættuna á grjóthruni og aurskriðum, einkum á sunnanverðum Austfjörðum. Kallað er eftir að íbúar láti Veðurstofuna vita af ef um skriður eða hrun verður vart.
Úrkomuákefðin verður mest nú um kvöldmat en úr henni dregur þegar líður á nóttina. Seinni partinn á morgun ætti að stytta upp. Úrkoman er ekki samfelld og á milli styttir upp sem hjálpar jarðvegi til að drena sig.
Skriðuvakt Veðurstofunnar fylgist sérstaklega með mælitækjum á Seyðisfirði, eins og venjan er í stórrigningum. Eftir rigningu síðustu viku lækkaði grunnvatnsstaðan aftur um helgina þegar stytti upp. Engra hreyfinga hefur orðið vart þar.
Grjótá á Eskifirði í ham í síðustu viku. Mynd: Lögreglan á Austurlandi.