Gullver í rallið á ný
Ísfisktogarinn Gullver NS býr sig nú undir brottför frá Seyðisfirði með kvöldinu en skipið er eitt af fjórum sem þátt taka í árlegu togararalli að þessu sinni.
Togararall, stundum kallað marsrall, er skipulögð aðferð til að mæla stofna botnsfisks við landið en auk þess eru aðrar rannsóknir gerðar þessum ferðum samfara. Farið verður um svokallað austursvæði, frá Þórsbanka og vestur fyrir Grímsey, og togað á um 150 stöðum alls en verkefnið tekur um 20 daga.
Skipið tók þátt í sama ralli fyrir ári síðan svo skipstjórinn, Þórhallur Jónsson, er flestum hnútum kunnugur. Hann segir á vef Síldarvinnslunnar að það verði að mestu endurtekið efni frá síðasta ári.
„Þetta er svonefnt norðaustursvæði. Það er ráðgert að rallið standi yfir í eina 20 daga og landað verði þegar verkefnið verður um það bil hálfnað. Steinþór Hálfdanarson verður skipstjóri í rallinu en hann gjörþekkir allt í sambandi við það. Steinþór var skipstjóri á Gullver fyrri hluta rallsins í fyrra og hafði áður margoft tekið þátt í ralli á Bjarti og Barða.“