Skip to main content

Hæsti hitinn og mesta úrkoman var á Austurlandi í fyrra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. jan 2024 10:15Uppfært 30. jan 2024 10:17

Hæstur hiti síðasta árs á landinu öllu mældist á Egilsstöðum á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Hiti fór þá upp í 27,9 gráður á Egilsstaðaflugvelli. Óvenjuleg hlýindi voru á Austurlanda í júní á síðasta ári, þannig var júní sá hlýjasti frá upphafi mælinga á Egilsstöðum og víðar í fjórðungnum. 

Þetta kemur fram í tíðarfarsyfirliti síðasta árs sem Veðurstofa Íslands hefur tekið saman. Þar kemur líka fram að mesta sólarhringsúrkoma ársins mældist á Austfjörðum, í Neskaupstað í september síðastliðnum. 

Veturinn 2022 til 2023 var óvenjulega kaldur á landinu öllu og stóð nær samfelld kuldatíð frá 7. desember til 19. janúar. Í mars kólnaði aftur, eftir umhleypingasama tíð seinni hluta janúar og í febrúar, og stóð kuldatíðin þá frá 6. til 28. mars. Var þá kaldast á norðaustan- og austanverðu landinu, og töluverður snjór var um landið norðan- og austanvert. 

Sem fyrr segir var óvenjulega hlýtt á Austurlandi í júní en í júlí voru aftur á móti ríkjandi norðan- og norðaustanáttir allan mánuðinn og var þá kalt á Norður- og Austurlandi en hlýrra suðvestanlands. Ágústmánuður var svo tiltölulega hlýr um meginhluta landsins, hægviðrasamur og þurr framan af. Haustið var hægviðrasamt, snjólétt  og veður almennt gott. 

Meðalhiti ársins á Egilsstöðum var 3,8 stig sem er 0,1 stigi undir meðallagi. Á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði var meðalhitinn sá sami, 3,8 stig. Á Dalatanga var meðalhitinn 4,5 stig og einnig á Teigarhorni. 

Þegar kemur að úrkomu var september mjög blautur á Austurlandi. Dagana 18. og 19. september gerði mikið vatnsveður á Austfjörðum, Norðurlandi og norðanverðum Vestfjarðarkjálkanum. Nokkrar skriður féllu í kjölfarið og ár flæddu yfir bakka sína. Á Austfjörðum mældist heildarúrkoman þessa daga vel yfir 200 mm á nokkrum veðurstöðvum. 

Mesta sólarhringsúrkoma ársins á sjálfvirkri veðurstöð mældist 169,6 mm í Neskaupstað þann 19. september. Á mannaðri veðurstöð mældist mesta sólarhringsúrkoman einnig á Austfjörðum, 159,9 mm á Hánefsstöðum í Seyðisfirði. 

Á landinu öllu var árið tiltölulega snjólétt en mjög snjóþungt var á Austfjörðum í lok mars. Mikill fjöldi snjóflóða féll á Austfjörðum í lok mars, þau stærstu í Neskaupstað og ollu þar miklu eignatjóni.