Hæsti meðalhiti sem mælst hefur í júnímánuði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. júl 2023 11:08 • Uppfært 21. júl 2023 11:23
Meðalhitinn á Hallormsstað í júní síðastliðnum er sá hæsti sem mælst hefur á landinu í þeim mánuði. Júní 2023 fer í sögubækurnar á fleiri veðurstöðvum á Austurlandi.
Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands fyrir nýliðinn júnímánuð. Meðalhitinn á Hallormsstað var 12,8 gráður.
Egilsstaðir voru þar hársbreidd á eftir með 12,7 gráðu meðalhiti. Það er hæsti meðalhiti í júní í 69 ára sögu mælinga þar. Meðalhitinn var þremur gráðum hærri en meðaltal síðustu 10 ára og 3,8 gráðum hærri en í sögunni.
Teigarhorn í Berufirði státar af 151 árs mælingasögu. Þar var meðalhitinn 9,1 gráða sem kemur júní í þriðja sætið þar. Á Dalatanga var meðalhitinn 8,2 gráður sem þýðir sjöttu heitasti júnímánuður í 85 ára mælingasögu. Á þessum stöðum var mánuðurinn tæplega gráðu hlýrri en undanfarin 10 ár og 1,5 gráðum hlýrri en gegnum söguna.
Mesta frávikið miðað við síðustu tíu ár var á veðurstöðvunum á Eyjabökkum og Fjarðarheiði. Þar var mánuðurinn 4,2 gráðum hlýrri en vanalega. Hæsti dægurhitinn var 27,9 stig á Egilsstöðum þann 17. júní. Ekki hefur mælst hærri hiti í júní hérlendis frá árinu 1988.
Maí 2023 var einnig óvenju heitir, sá næst heitasti í sögunni á Austurlandi.
Mynd: Unnar Erlingsson