Skip to main content

Hæstiréttur fellst á að skoða mál HEF veitna gegn fyrrum framkvæmdastjóra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. ágú 2025 14:02Uppfært 07. ágú 2025 14:04

Hæstiréttur hefur samþykkt beiðni stjórnar HEF veitna um að taka fyrir mál félagsins gegn fyrrum framkvæmdastjóra þar sem málið geti verið fordæmisgefandi. Félagið var í Landsrétti dæmt til að greiða framkvæmdastjóranum laun á uppsagnarfresti auk miskabóta.


Framkvæmdastjóranum var sagt upp í lok júlí 2019. Í fyrstu var gert ráð fyrir að hann ynni sex mánaða uppsagnarfrest og skilaði af sér verkefnum. Mánuði síðar ákvað stjórnin að rifta samningnum og svipta manninn þar með laununum.

Stjórn HEF taldi verulegar vanefndir hafa verið á störfum framkvæmdastjórans, sakaði hann um að hafa ekki fylgt eftir ákvörðun um gjaldskrárhækkun, nýtt tæki HEF til eigin nota, ekki afhent öll gögn og hafa keypt inn hluti til ljósleiðaravæðingar án sérstakrar heimildar. Framkvæmdastjórinn stefndi HEF.

Landsréttur taldi framkvæmdastjórann hafa haft heimild til þeirra kaupa á grundvelli kostnaðaráætlunar sem stjórn hafði samþykkt. Aðrar ávirðingar voru metnar ósannaðar. Niðurstaðan var að HEF var dæmt til að greiða framkvæmdastjóranum 10 milljónir, auk vaxta, í vangoldin laun og eina milljón í miskabætur. Landsréttur snéri þar með að mestu við dómi Héraðsdóms Austurlands sem taldi uppsögnina hafa verið löglega og að framkvæmdastjórinn hefði ofreiknað sér kostnað.

Fordæmisgefandi um skilyrði riftunar ráðningarsamnings


Stjórn HEF óskaði því eftir að Hæstiréttur tæki málið til meðferðar. Stjórnin telur að dómurinn sé fordæmisgefandi um stöðu framkvæmdastjóra einkahlutafélags og starfsskyldur. Þá telur stjórnin að dómurinn hafi fordæmisgildi um kröfu vinnuveitenda til endurgreiðslu á kostnaði framkvæmdastjóra sem stjórn hefur ekki samþykkt. Að auki telur stjórnin dóm Landsréttar rangan um heimild til riftunar samnings, endurgreiðslu og uppgjör launa.

Hæstiréttur fellst á að dómur Landsréttar kunni að hafa verulegt almennt gildi, meðal annars um skilyrði riftunar ráðningarsamnings og greiðslu skaða- og miskabóta. Þess vegna er fallist á áfrýjunina. Málið er hins vegar ekki komið á dagskrá Hæstaréttar.