Hæstur hitinn á Egilsstöðum í liðnum mánuði

Hæsti hiti sem Veðurstofa Íslands mældi á landinu í júlímánuði reyndist vera á Egilsstöðum þann 14. júlí þegar hitastigið náði 27,5 stigum. Hæsti meðalhiti mánaðarins alls var þó á Akureyri.

Veðurstofan hefur birt tölfræði sína um tíðarfar á landinu í liðnum mánuði þar sem mest er áberandi mikil úrkoma á stóru svæði suðvestan- og vestanlands. Á einum þremur mælisvæðum á Vesturlandi mældist úrkoman sú mesta sem mælst hefur frá upphafi.

Austanlands var meðalhiti yfir meðallagi síðustu þrjátíu ára á allnokkrum stöðum. Á Egilsstöðum var hitinn 0,9 stigum yfir, 0,6 yfir á Dalatanga og 0,2 stigum yfir meðallagi að Teigarhorni.

Á allnokkrum öðrum mælistöðum Veðurstofunnar á Austurlandi fór hitinn í eða yfir 25 stigin í júlí. Þar á meðal á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði og á Hallormsstað. Þá náði hitastigið um eða yfir 20 stigum á ýmsum fjallvegum á borð við Oddsskarð, Öxi, Fjarðarheiði og í Fagradal.

Varað var við töluverðum tjörublæðingum á veginum yfir Fagradal fyrr í sumar en þar náði hitinn hæst 22,4 stigum í júlí. Mynd GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.