Hætta á ofanflóðum í Stöðvarfirði talin óveruleg
Byggðin á Stöðvarfirði er ekki talin í mikilli hættu af völdum ofanflóða samkvæmt glænýju hættumati sérfræðinga Veðurstofu Íslands.
Fræðingar Veðurstofunnar hafa, með fulltingi sérstakrar hættumatsnefndar Stöðvarfjarðar, frá vori 2022 unnið að nýju uppfærðu hættumati fyrir Stöðvarfjörð með tilliti til ofanflóða. Það mat liggur nú formlega fyrir og geta áhugasamir kynnt sér matið á skrifstofu Fjarðabyggðar og á bókasafni Stöðvarfjarðar næstu vikurnar. Tillagan verður í kjölfarið lögð fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem staðfestir matið formlega.
Við hættumatið var stuðst við vettvangsrannsóknir, sögulegar heimildir, líkindareikninga og viðmiðunarreglur sem Veðurstofan setur sér sjálf. Gróf niðurstaða er sú að ekki sé talið að þéttbýlið á Stöðvarfirði sé í snjóflóðahættu enda engar heimildir um stór snjóflóð sem ógnað hafa byggðinni. Heimildir finnast um smærri flóð í Hellufjalli og þar er líka vitað um minnst eina stóra skriðu en sú olli skemmdum á bænum Kirkjubólssetri árið 1870.
Sérfræðingarnir meta það svo að allnokkur hús í bænum eru á hættusvæði vegna krapaflóða og þá fyrst og fremst úr Einarsstaðaánum. Hættusvæðunum er skipt í þrennt samkvæmt matinu. Svæði A og B skilgreind lítil hættusvæði en hættan meiri á svæði C. Innan þess svæðis standa ein fimm íbúðarhús að hluta til auk vatnsgeymis og nær að mörkum grunnskólans. Mælst er til þess í hættumatinu að hvorki atvinnu- né íbúðarhúsnæði verði reist á þessum þremur skilgreindu hættusvæðum.
Skjáskot af hættusvæðum A, B og C í Stöðvarfirði. Hættan almennt talin lítil en helst þá af krapaflóðum