Skip to main content

Hætta á snjóflóðum minnkar hratt

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. mar 2023 06:39Uppfært 31. mar 2023 06:41

Ekki hafa borist tíðindi af nýjum ofanflóðum á Austfjörðum síðan um miðnætti. Töluvert féll af flóðum seinni partinn í dag. Líkur á snjóflóðum minnka nú hratt en fylgst verður með hættu af krapaflóðum fram eftir degi.


Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands sáust litlar spýjur í Hvalnesskriðum um miðnætti sem er ekki óalgengt þar í vatnsveðrum. Engar frekari fregnir hafa síðan borist af nýjum ofanflóðum.

Talsvert mikið var af flóðum á Austfjörðum seinni partinn í gær. Nokkur snjóflóð féllu ofan Neskaupstaðar, flest stöðvuðust í 100-200 metra hæð en tvö voru það stór að þau féllu á varnir undir Drangagili og Tröllagili. Þá féllu einnig flóð úr Hólmatindi og Hellufjalli í Stöðvarfirði.

Appelsínugul viðvörun er í gildi til klukkan níu vegna asahláku en þá tekur við gul viðvörun sem gildir til miðnættis.

Heldur dró úr úrkomu á Austfjörðum um miðnætti en hún byrjaði aftur seint í nótt og er þó nokkur núna. Hiti í fjöllum er um frostmark en 2-3 gráður á láglendi. Áfram hlýnar og þá umbreytist snjókoman á svæðinu í rigningu.

„Við bíðum birtingar en vonumst til að það versta sé afstaðið. Við eigum von á að það dragi hratt úr snjóflóðahættunni í dag. Við fylgjumst áfram með hættu á krapaflóðum eða flóðum í ám og lækjum á meðan dregur úr úrkomunni, sem er enn talsverð,“ segir Tómas Jóhannesson, fagstjóri hjá Veðurstofu Íslands.

Veðurstofan fundar með almannavörnum og aðgerðastjórn á Austurlandi klukkan átta. Að þeim fundi loknum má vænta tíðinda um afléttingu rýminga, væntanlega fyrst á svæðum þar sem hætta hefur verið talin á snjóflóðum.

Mynd: Björgvin Valur Guðmundsson