Hættumat ofanflóða fyrir Stöðvarfjörð tilbúið í haust
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. júl 2023 12:12 • Uppfært 05. júl 2023 12:27
Eiginlegri vinnu við gerð ofanflóðamats fyrir Stöðvarfjörð er lokið. Eftir er að skrifa lokaskýrslu um matið. Hún verður tilbúin í haust og verður þá kynnt íbúum.
Þuríður Lillý Sigurðardóttir, formaður umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar og fulltrúi sveitarfélagsins í hættumatsnefnd fyrir Stöðvarfjörð, segir að hinni eiginlegri vinnu hafi lokið nýverið þegar farið var í vettvangsferð á Stöðvarfjörð.
Lögum samkvæmt eiga sveitarfélög að skipa hættumatsnefndir til að leiða vinnu við hættumat á svæðum þar sem heimildir eru um ofanflóð. Á Stöðvarfirði er fyrst og fremst vitað um krapaflóð í árfarvegum.
Veðurstofan vinnur hættumatið sjálft. Þar er nú unnið að lokaskýrslu. Þegar hún liggur fyrir verða niðurstöðurnar kynntar íbúum og þeim veittur frestur til umsagnar.
Þuríður segir erfitt að ræða væntanlegt innihald matsins þar sem niðurstöður geti enn breyst í lokavinnunni. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar eigi þó ekkert íbúðarhús að lenda á mesta hættusvæðinu, hættusvæði C. Þar er ekki heimil búseta og þarf annað hvort að kaupa upp íbúðarhús eða byggja varnir þar sem svo er.
Hins vegar sé útlit fyrir að ráðast þurfi í framkvæmdir til að styrkja árfarvegi til að taka á móti krapaflóðum. Hvernig það verði gert komi í ljós síðar.
Hættumatið ætti hins vegar að liðka fyrir skipulagsvinnu á Stöðvarfirði. Byrjað var að deiliskipuleggja miðsvæði bæjarins en því var frestað á meðan hættumatið var gert. „Núna fáum við hættulínurnar þannig við vitum hvar má byggja,“ segir Þuríður Lillý.