
Hættustigi vegna úrkomu lýst yfir frá klukkan 18
Óvissustig hefur verið lýst yfir á Austfjörðum vegna mikillar úrkomu. Ákveðið hefur verið að hækka viðbúnað upp á hættustig frá klukkan 18:00. Engar ákvarðanir liggja enn fyrir um frekari aðgerðir.Það er ríkislögreglustjóri sem lýsir yfir óvissustiginu í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi. Ákvörðunin er tekin í kjölfar fundar með Veðurstofu Íslands nú klukkan 13:00.
Viðbragðsstig almannavarna eru þrjú: óvissustig, hættustig og neyðarstig. Á óvissustig, sem nú er í gildi, er hafin atburðarás sem síðar getur leitt til þess að öryggi fólks eða byggðar sé stefnt í hættu. Samráð viðbragðsaðila eykst sem og öll vöktun.
Þetta er enn frekar eflt á hættustiginu þar sem aukið rými er til tafarlausra aðgerða ef þurfa þykir. Þetta þýðir að aðilar eru á því stigi komnir í viðbragðsstöðu ef þróun mála þykir með slík að grípa þurfi til aðgerða svo sem rýminga eða lokana á vegum. Engar slíkar ákvarðanir um slíkar aðgerðir hafa enn verið teknar. Appelsínugul viðvörun tekur gildi fyrir Austurland og Austfirði á miðnætti og gildir í sólarhring.
„Úrkomuákefðin er mikil og því er spáð að það bæti í úrkomuna í kvöld. Við það aukast líkurnar að eitthvað gerist,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna.
Áfram verður fundað með Veðurstofunni í dag og tilkynningar eftir því sem staðan breytist. „Við vitum að staðan er ekki þægileg,“ segir Hjördís.
Úrkoma frá miðnætti var klukkan 14 komin í 55 millimetra í Fáskrúðsfirði og um 50 mm á Norðfirði og Borgarfirði.
Mynd úr safni.