Skip to main content

Hafa hug á ölstofu í Faktorshúsinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. ágú 2023 09:07Uppfært 16. ágú 2023 09:17

Forsvarsmenn Beljanda brugghúss á Breiðdalsvík hafa óskað eftir viðræðum við sveitarfélagið Múlaþing um að fá Faktorshúsið á Djúpavogi undir ölstofu og örbrugghús. Heimastjórn Djúpavogs gaf hugmyndinni jákvæða umsögn.


Beljandi óskaði eftir viðræðum um kaup eða leigu á húsinu með erindi sem tekið var fyrir á síðasta fundi heimastjórnar Djúpavogs.

Í bréfinu segir að Beljandi hafi verið að leitað að hentugu stað á Djúpavogi undir lítið brugghús og ölstofu. Það sé bæði til að auka framleiðslugetu fyrirspurn og svara vaxandi eftirspurn eftir vörum félagsins en einnig til að bæta við afþreyingu á Djúpavogi.

Í erindinu er útlistað að auk bjórsins geti Beljandi vel hugsað sér að selja í húsinu fleiri vörur sem framleiddar eru á svæðinu og gera það skemmtilegt heim að sækja. Ef hugmyndirnar ganga eftir er stefnt á að nýta komandi vetur til að standsetja húsið og opna þar fyrir næsta sumar.

Erindið var lagt fyrir heimastjórn Djúpavogs í síðustu viku. Í bókun segir að heimastjórninni lítist vel á hugmyndirnar og hvetji byggðaráð til að skoða málið með jákvæðum huga.

Faktorshúsið er næst elst þeirra húsa sem enn standa á Djúpavogi, byggt árið 1848 á grunni eldra húss frá 1779. Það stendur við hlið Löngubúðar og saman setja þau sterkan svip á þorpið.

Endurbætur hafa staðið yfir á Faktorshúsinu um árabil. Ytra umhverfi hússins er að mestu tilbúið. Þar sem til þessa hefur ekki verið ljóst hvaða starfsemi verði í húsinu til frambúðar hefur ekki verið hægt að ganga frá innandyra. Auglýsing eftir samstarfsaðilum um nýtingu hússins í vor bar ekki árangur þá.