Skip to main content

Hafa veitt söluskálanum á Fáskrúðsfirði andlitslyftingu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. nóv 2023 18:10Uppfært 09. nóv 2023 18:13

Þau Birgir Björn Birgisson og Eydís Lilja Ólafsdóttir tóku við rekstri söluskála Skeljungs á Fáskrúðsfirði sumarið 2019. Þau hafa síðan varið talsverðum tíma í að veita staðnum nýja ásýnd og veitt honum nýtt nafn, Loppa.


„Þetta var svona týpísk vegasjoppa eins og þær voru allar lengi vel sem er fyrir nokkru orðið dálítið úrelt fyrirbæri. Fólk almennt í dag vill aðeins meiri þjónustu en þá var og helst hafa aðeins huggulegt í kring jafnvel þó fólk sé bara að grípa sér pylsu eða pizzubita,“ segja þau.

Þau tóku að sér reksturinn því þau vildu breyta til í þáverandi störfum með von um að geta verið lausari við og átt tíma með fjölskyldunni. Birgir hafði unnið fyrir Loðnuvinnsluna en Eydís sem skólaliði í grunnskólanum.

„Þetta gengur allavega vel hjá okkur og þó viðvera hérna sé mikil af okkar hálfu þá náum við samt að eyða meiri tíma saman við fjölskyldan en við gátum áður en við tókum við þessu hér.“

Viðveran er þó kannski meiri en þau ætluðu sér því hörð samkeppni er um starfsfólk á Fáskrúðsfirði, eins og víðar á Austfjörðum. „Þetta er svo sem sama sagan alls staðar í bænum að hér er ekkert starfsfólk á lausu og hefur eiginlega ekki verið lengi meðal annars út af húsnæðisskorti. Við þurfum því beinlínis að loka ef okkur langar í frí en það gerum við líka hiklaust því við þurfum okkar tíma saman.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.