Hafbjörg dró Valdimar GK til hafnar í Neskaupstað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. okt 2023 10:33 • Uppfært 09. okt 2023 10:37
Hafbjörg, skip björgunarsveitarinnar Gerpis í Neskaupstað, er nýkomið til hafnar með Valdimar GK, 350 tonna línuveiðiskip, sem missti afl á skrúfu úti fyrir Norðfjarðarflóa upp úr miðnætti.
Áhöfnin á Valdimar óskaði eftir aðstoð upp úr miðnætti í nótt. Skipið hafði þá misst afl á skrúfu um 25 sjómílur beint austur af Norðfjarðarhorni.
Hafbjörg lét úr höfn frá Neskaupstað um kortér yfir eitt og var komin á vettvang um tveimur tímum síðar. Vel gekk að koma taug á milli skipanna og var Hafbjörg byrjuð að draga línuveiðiskipið upp úr klukkan þrjú.
Skipin komu til Norðfjarðar um klukkan half tíu í morgun en eftir það tók við vinna við að leggja að bryggju. „Þetta hefur allt gengið mjög vel. Sjórinn var lygn og ekki hægt að kvarta undan aðstæðum,“ segir Hafliði Hinriksson, björgunarsveitarmaður í Gerpi en hann var um borð í Hafbjörgu í nótt.
Áhöfnin skiptist á vöktum og hvíld á leið til hafnar í nótt. Hafbjörg kom til Norðfjarðar í byrjun sumars 2021 og hefur reynst vel. „Það er mikill munur að hafa þetta skip sem fer mun hraðar yfir og betur með áhöfnina en það skip sem við höfðum áður.“
Hafbjörg á leið með Valdimar inn Norðfjörð í morgun. Mynd: Landsbjörg