Skip to main content

Hafbjörg dró vélarvana bát til Norðfjarðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. apr 2024 17:53Uppfært 24. apr 2024 17:54

Hafbjörg, skip björgunarsveitarinnar Gerpis í Neskaupstað, kom laust fyrir klukkan fimm í dag með smábát til hafnar sem missti afl fyrir mynni Seyðisfjarðar.


„Hann var á siglingu þegar hann missti vélarafl og óskaði eftir aðstoð. Aðstæður voru eins góðar og þær gátu verið. Það var engin hætta á ferðum, bátinn rak meðfram landinu og engin hætta á að hann ræki að landi,“ segir Hafliði Hinriksson, félagi í Gerpi sem fór í björgunarleiðangurinn.

Hafbjörg fór frá Norðfirði um klukkan 13:15 og var komin með taug í bátinn um 14:30. Báturinn var þá staddur í mynni Seyðisfjarðar og rak hægt til suðurs.

Um var að ræða tæplega 9 metra langan og sex tonna smábát, Ásgeir ÁR úr Þorlákshöfn. Hafbjörg kom með hann til Norðfjarðar skömmu fyrir klukkan fimm.

Mynd: Björgunarsveitin Gerpir