Skip to main content

Hafdís dró vélarvana skemmtibát í land

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. jún 2023 18:01Uppfært 20. jún 2023 18:01

Ný Hafdís, bátur Björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirði, fór í sitt fyrsta alvöru útkall í gær þegar hún kom vélarvana skemmtibát til bjargar um 30 sjómílur austur af landinu. Formaður sveitarinnar segir Hafdísi hafa legið vel enda sérlega gott í sjóinn.


„Aðstæður voru eins góðar og þær geta verið. Það var þoka í kringum landið þannig við sigldum út fjörðinn eftir radar en eftir það komum við út í bjart og fallegt veður og dauðan sjó,“ segir Grétar Helgi Geirsson, formaður Geisla.

Sveitin var kölluð út í gær vegna skemmtibáts sem varð vélarvana á leið frá Færeyjum til Íslands. Páll Jónsson GK fór að bátnum, hélt í hann og dró hann áleiðis. Hafdís tók við um klukkan hálf tólf í gærkvöldi og fór Páll þá inn til Djúpavogs en hinir bátarnir tveir komu til Fáskrúðsfjarðar um hálf fjögur í nótt. „Við keyrðum á 30 mílum út en toguðum hann á sjö mílum,“ útskýrir Grétar Helgi. Hann segir enga hættu hafa verið á ferðum þar sem veðrið var sérlega milt.

Geisli tók við Hafdísi í nóvember síðastliðnum. Stærsta verkefni hennar síðan var þátttaka í leit að týndum einstaklingi í Eskifirði í mars en þess utan hefur hún sinnt minni verkefnum. Því má segja að þetta hafi verið fyrsta alvöru útkallið hennar.

Hafdís kemur frá Rafnar, líkt og eldri nafna hennar sem bátasmiðjan skipti á við Fáskrúðsfirðinga. „Það reyndi ekki á hana í þeim sjó sem var í gær en hún siglir eins og bátur frá Rafnar. Skrokkurinn er sá sami en aðeins önnur þyngdardreifin, þessi er þyngri að aftan. Það eru betri stólar í þessari og það fór vel um okkur í þeim þegar hún leið um öldurnar í gær.“

Mynd: Björgunarsveitin Geisli