Hafna því að landsbyggðin hafi stolið Sjálfstæðisflokknum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. mar 2025 10:33 • Uppfært 27. mar 2025 10:34
Nýr formaður Sjálfstæðisflokksins segir furðulegt að heyra að landsbyggðin hafi stolið Sjálfstæðisflokknum á nýafstöðnu landsþingi. Eftir hann búa hvorki formaður, varaformaður né ritari á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er í fyrsta sinn í sögu flokksins sem formaðurinn býr ekki á höfuðborgarsvæðinu.
Búseta forustunnar kom til tals á opnum fundi sem ný forusta hélt á Egilsstöðum á þriðjudag. Þar sátu fyrir svörum formaðurinn Guðrún Hafsteinsdóttir úr Hveragerði, varaformaðurinn Jens Garðar Helgason frá Eskifirði og ritarinn Vilhjálmur Árnason úr Grindavík.
Þau voru kjörin á landsfundi í lok febrúar. Landsfundarfulltrúi, sem sótti fundinn á Egilsstöðum, sagðist hafa fengið að heyra það í lok landsfundarins að landsbyggðin hefði stolið flokknum. Jens Garðar sagðist hafa fengið sambærilega athugasemd á fundi í Garðabæ. Hann hefði minnt á að vegna starfa sinna á Alþingi væri hann á höfuðborgarsvæðinu stóran hluta ársins.
Fyrsti formaðurinn með lögheimili á landsbyggðinni
Guðrún sagði þetta koma sér spánskt fyrri sjónir þar sem forusta flokksins hefði nánast alltaf komið af höfuðborgarsvæðinu. Hún benti á að frá því flokkurinn var stofnaður árið 1929 hefði formaðurinn aðeins einu sinni verið utan höfuðborgarsvæðisins.
Það hefði verið Þorsteinn Pálsson, formaður á árunum 1983-1991. Hann var þingmaður Suðurlands en Guðrún benti á að hann hefði aðeins búið á Selfossi allra fyrstu árin, annars átt lögheimili í Reykjavík. Hún væri því fyrsti formaðurinn með lögheimili í landsbyggðarkjördæmi.
Hefur vantað breiðari skírskotun
Guðrún sagðist ólíkt mörgum landsbyggðarþingmönnum ekki hafa fest sér íbúð í Reykjavík heldur keyrði hún áfram yfir Hellisheiðina, eins og hún hefði gert undanfarin 20 ár. Hún sagði sögu af því þegar stefnuræðu forsætisráðherra var frestað í rauðri viðvörun í byrjun febrúar að hún hefði þrælað sér snemma dags yfir Hellisheiðina í blindbyl, til þess eins að sjá skilaboð um frestun fundar þegar hún hafði lagt í bílakjallara Alþingis.
Hún hefði hugsað sig um góða stund áður en hún ákvað að keyra til baka í eldingaveðri sem hafði þá bæst við. „Ef Guðrún Hafsteinsdóttir getur verið að þessu gutli þá getur Kristrún Frostadóttir keyrt á milli húsa í Reykjavík, líkt og hinir 60 þingmennirnir sem voru það.“
En Guðrún heimfærði söguna ekki bara á pólitíska andstæðinga heldur líka samherja. „Þetta er kannski það sem hefur vantað í forustuna, þessa breiðari skírskotun sem ég talaði um í aðdraganda míns framboðs. Þetta er flokkur allra landsmanna.“
Sveitarstjórnarkosningarnar fyrsta markmiðið
Í í bæði inngangs- og lokaorðum talaði Guðrún um að fundaferðin væri fyrsta skrefið að sveitarstjórnarkosningum á næsta ári. „Verkefnið er að komast aftur til valda. Við erum valdalaus. Við stjórnum ekki landinu, ekki borginni eða mörgum stórum sveitarfélögum. Landinu farnast best þegar við stjórnum og þess vegna leggjum við allt kapp á sveitarstjórnarkosningar.“
Guðrún talaði sérstaklega um Reykjavíkurborg, þar væri þörf á að ljúka 16 ára „eyðimerkurgöngu“. Tækifæri hlyti að vera núna því meirihlutinn stæði sig einstaklega illa sem sýndi sig á að fólk þyrfti að flytja úr borginni vegna húsnæðisskorts.