Hagnaður Loðnuvinnslunnar tvöfaldast
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. maí 2022 13:40 • Uppfært 24. maí 2022 13:40
Aðalfundur Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði tvöfaldast milli ára. Styrkjum fyrir tæpar 40 milljónir var úthlutað á sameiginlegum aðalfundi hennar og Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga í síðustu viku.
Hangaður Loðnuvinnslunnar eftir skatta í fyrra var 1,25 milljarðar króna, samanborið við 663 milljónir árið 2020. Tekjur félagsins voru 12,5 milljarðar, sem er aukning um 5% milli ára. Veltufé frá rekstri var 1,57 milljarðar en voru tveir milljarðar í fyrra. Eigið fé í árslok var rúmir 11,5 milljarðar.
Samþykkt var að greiða 20% arð til hluthafa eða 140 milljónir. Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga sem á 83%. Hagnaður af rekstri þess á síðasta ári var rúmur milljarður króna.
Hefð er fyrir því að félögin úthluti styrkjum til félagasamtaka og málefna á Fáskrúðsfirði samhliða aðalfundunum. Í síðustu viku veitti Kaupfélagið 8,5 milljónir og Loðnuvinnslan 29 milljónir.
Fáskrúðsfjarðarkirkja fékk fjórar milljónir frá Kaupfélaginu en kominn er tími á viðhald, meðal annars þarf að gera við kirkjuturninn en hugmyndir eru uppi um að færa hann til upprunalegs útlits. Dvalarheimilið Uppsalir fékk tvær milljónir til kaupa á dýnum og áhaldaþvottavél og Hollvinasamtök félagsheimilisins Skrúðs til að uppbyggingar og utanumhalds.
Þá fékk bæjarhátíðin Franskir dagar 1,5 milljón frá annars vegar Kaupfélaginu, hins vegar Loðnuvinnslunni.
Stærsta styrkinn frá Loðnuvinnslunni fékk Ungmennafélagið Leiknir, 15 milljónir. Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk sjö milljónir og björgunarsveitin Geisli fimm milljónir. Verið er að smíða nýjan björgunarbát fyrir sveitina sem afhentur verður í júlí. Að endingu var hálfri milljón veitt til fornleifauppgraftarins í Stöðvarfirði.