Hákon glímukóngur og Kristín Embla glímudrottning
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. maí 2025 10:50 • Uppfært 30. maí 2025 10:52
Reyðfirðingarnir Hákon Gunnarsson og Kristín Embla Guðjónsdóttir eru glímukóngur og glímudrottning ársins eftir Íslandsglímuna sem haldin var í Reykjavík fyrr í þessum mánuði. Þrír austfirskir keppendur tóku þátt í Evrópumeistaramótinu í keltneskum fangbrögðum sem haldið var í Frakklandi um páskana.
Þetta er í fyrsta sinn sem Hákon hlýtur Grettisbeltið en sigurvegari síðasta árs, Þórður Páll Ólafsson, einnig frá Reyðarfirði, tók líka þátt í keppninni. Tveir aðrir austfirskir keppendur tóku þátt í karlaflokki, þeir Þórhallur Karl Ásmundsson og Matthías Örn Kristjánsson.
Í kvennaflokki er keppt um Freyjumenið. Kristín Embla var að vinna það í fjórða sinn. Meðal þeirra andstæðinga sem hún lagði að velli var systir hennar, Elín Eik.
Keppendurnir æfa hjá Val á Reyðarfirði en keppa undir merkjum UÍA á landsvísu. Keppendur félagsins hafa verið áberandi í íslensku glímulífi undanfarin ár.
Systurnar og Hákon voru síðan í íslenska landsliðinu í glímu sem fór á Evrópumeistaramótið. Þar er keppt annars vegar í gouren, hins vegar hryggspennu eða backhold.
Kristín Embla kom heim sem tvöfaldur Evrópumeistari, eftir að hafa unnið báðar greinar í -80 kg flokki kvenna. Elín Eik sigraði í +70 kg flokki unglinga í hryggspennu og Hákon vann +90 kg flokk unglinga í báðum greinum. Hann var einnig valinn besti ungi glímumaður mótsins í hryggspennu.
Kristín Embla, Hákon og Elín Eik á Evrópumótinu. Mynd: Glímusamband Íslands