Halda áfram að undirbúa verkfall eftir að hafa hafnað nýjasta tilboði Alcoa Fjarðaáls
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. ágú 2025 13:44 • Uppfært 29. ágú 2025 13:44
AFL Starfsgreinafélag og Rafiðnaðarsamband Íslands (RSÍ) hafa hafið undirbúning að atkvæðagreiðslu um verkfall í álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Félögin gagnrýna það sem þau telja takmarkað umboð samninganefndar Alcoa.
Samninganefndir verkalýðsfélaganna funduðu í morgun og ákváðu þar að hafna nýjasta tilboði Alcoa. Það virðist hafa verið tilraun til að þoka viðræðum aftur af stað eftir að þær sigldu í strand í byrjun júlí þegar samninganefndir AFLs og RSÍ töldu ekki hægt að byggja á þeim hugmyndum sem álverið lagði þá fram.
Í tilkynningu félaganna frá í morgun segir að ljóst sé að eigendur Alcoa séu ekki tilbúnir að tryggja sömu launahækkanir og kjör og gilda í öðrum álverksmiðjum á Íslandi. Þau ítreka fyrri afstöðu sína um að ekki verði skrifað undir samning sem feli í sér lakari kjör eða lægri launahækkanir en í öðrum slíkum samningum.
Þau skora á eigendur Alcoa Fjarðaáls að senda fulltrúa með raunverulegt umboð til samninga. Félögin segja komið nóg af því að ræða við aðila sem séu umboðslausir á meðan erlendu eigendurnir forðist að taka þátt í viðræðunum.
Verkfall í álverinu er mikið ferli því skrúfa þarf niður framleiðsluna áður en hún er endanlega stöðvuð. Það tekur allt í allt sex mánuði og því hefst verkfallið vart fyrr en vorið 2026.