Skip to main content

Halda í bjartsýnina um að finna loðnu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. feb 2024 13:03Uppfært 06. feb 2024 13:11

Tvö skip eru komin af stað til loðnuleitar og það þriðja bætist í hópinn innan skamms. Forstjóri Síldarvinnslunnar segir haldið í bjartsýnina um að loðna finnist þannig að ekki falli úr vertíð.


„Það er ekki annað hægt að vera í bjartsýnn, sem við erum. Það veit enginn meira en það,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.

Eitt skipanna þriggja er í eigu grænlensks dótturfélags hennar. Polar Ammassak lét úr höfn á Reyðarfirði seint í gærkvöldi og var í hádeginu komið norður fyrir Langanes. Ásgrímur Halldórsson fór frá Hornafirði í gær og er úti fyrir norðanverðum Austfjörðum.

Þriðja skipið Heimaey VE sigldi í nótt frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur en það var kallað inn í leiðangurinn eftir að ljóst varð að hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson þyrfti í slipp.

Fyrirhugað rannsóknarsvæði nær frá Víkurál út af Vestfjörðum og þaðan til austurs að Héraðsdjúpi út af Austfjörðum en yfirferðina mun þurfa að aðlaga að útbreiðslu loðnunnar og aðgengi að hafsvæðum til dæmis vegna hafíss.

Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun sagði við RÚV í gær að fréttir hafi borist af loðnu fyrir norðan land. Vísbendingar séu um að hún hafi verið undir hafís og ekki fundist í leitarleiðangri í janúar. Þess vegna séu vonir um að hægt sé að gefa út kvóta að leiðangri loknum.