Skip to main content

Haldið upp á fimm ára afmælti Tehússins með páskahátíð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. apr 2023 08:20Uppfært 11. apr 2023 12:40

Tehúsið á Egilsstöðum fagnar fimm ára afmæli sínu nú um páskana með viðburðaröð undir yfirskriftinni „Aldrei kemst ég vestur,“ þar sem á dagskrá eru meðal annars sálmasöngur, páskabíó og söngvaskáld.


Hátíðin hófst í gærkvöldi með spurningakeppni en í kvöld kemur fram stöðfirski grínistinn Kimi Tayler. Af öðrum viðburðum má nefna sálmastund á morgun, upphitun fyrir páskaball með ókeypis leigubíl á ballið, páskabíó auk þess sem Einar Ágúst kemur og tekur nokkur af sínum uppáhaldslögum á laugardag.

Halldór Warén, vert á Tehúsinu, segist í nokkur ár hafa gengið með þá hugmynd að halda páskahátíð á Tehúsinu. Undirbúningur var langt kominn þegar samkomutakmarkanir voru settar á í mars 2020. Núna hafi rétti tíminn verið kominn.

„Þetta með Aldrei kemst ég vestur er gamall brandari,“ segir Halldór en á Ísafirði er um páskana haldin tónlistarhátíðin „Aldrei fór ég suður.“ „Eins og margir vita þá er langt héðan vestur á Ísafjörð og því fannst okkur best að halda smá hátíð hér með því sem er í boði í nærumhverfinu.“

Hann hafi síðan áttað sig á að páskarnir í ár væru um sama leyti og fimm ár væru liðin frá opnun Tehússins. „Það var gaman að finna að heimafólki þótti strax vænt um okkur, var duglegt að koma og benda á okkur sem aftur er besta auglýsingin fyrir fleiri gesti.

Það hefur ansi margt gerst þessi ár, til dæmis Covid, en við erum bjartsýn á framtíðina,“ segir Halldór og bætir því við að uppbókað sé í gistingu þar í sumar. „Við höfum engin stórkostleg áform um breytingar í framtíðinni, frekar að fínstilla það sem við höfum.“