Halla Hrund áfram vinsælust á Austurlandi

Halla Hrund Logadóttir mælist áfram með mest fylgi forsetaframbjóðenda á Austurlandi. Austfirðingum gefst tækifæri til að spyrja hana spurninga á opnum fundi sem Morgunblaðið stendur fyrir í kvöld.

Niðurstöður nýjustu könnunar Maskínu voru birtar á föstudag en könnunin var gerð 22. apríl til 2. maí. Svarendur á Austurlandi voru fleiri en áður eða 47 talsins.

Halla Hrund Logadóttir mælist þar með 35,3% fylgi, sem gerir Austurland að hennar næst sterkasta landssvæði. Hún er með 5% meira en fyrir viku.

Baldur Þórhallsson er annar með 25,6%. Austurland er hans sterkasta landssvæði. Hann tapar þó 5% á svæðinu milli vikna.

Katrín Jakobsdóttir er þriðja með 18%, 7% meira en fyrir viku enda hún nýbúin að heimsækja svæðið. Þetta er þó hennar lakasta landssvæði.

Jón Gnarr er með 12,7%, svipað og hann var fyrir viku. Aðrir frambjóðendur mælast samanlagt með 8,5%, um 5% minna en fyrir viku. Fylgi þeirra er ekki frekar sundurliðað.

Það hversu fá svör eru á Austurlandi þýðir að sveiflur geta hratt orðið miklar. Ef úrtakið er þokkalega dreift og endurspeglar íbúa svæðisins þá getur það gefið ágætar vísbendingar um hug Austfirðinga til frambjóðendanna.

Sé horft til síðustu tveggja kannanna má draga þá ályktun að Halla Hrund sé með um þriðjungs fylgi á svæðinu. Baldur sé með 25-30% og það hreyfist ekki mikið. Sama megi segi segja um Jón Gnarr með um 12%. Út frá þessum tölum virðist Katrín Jakobsdóttir ekki eiga upp á pallborðið meðan Austfirðinga og sér þar með um 15% fylgi.

Hreyfingar á Austurlandi eru einnig í takt við það sem gerist á landsvísu, þar sem Halla Hrund sigldi fyrir rúmri viku snarpt fram úr Katrínu.

Halla Hrund er á ferðinni um Austurland í dag enda á hún að koma fram á borgarafundi Morgunblaðsins í Valaskjálf í kvöld klukkan 19:30. Þar munu blaðamennirnir Stefán Einar Stefánsson og Andrés Magnússon ræða við hana og taka við spurningum úr sal. Álitsgjafarnir Stefán Bogi Sveinsson, héraðsskjalavörður og Hrafndís Bára Einarsdóttir, fara einnig yfir stöðuna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.