Halla Hrund mælist hæst á Austurlandi þriðju vikuna í röð

Halla Hrund Logadóttir mælist með mest fylgi á Austurlandi, þriðju vikuna í röð. Katrín Jakobsdóttir sækir á þar eins og víða annars staðar.

Þetta eru niðurstöður könnunar Maskínu, sem birt var fyrir helgi, en hún var gerð 30. apríl til 8. maí. Frá Austurlandi bárust 44 svör.

Halla Hrund mælist með 36% á Austurlandi, svipað og vikuna áður. Fylgi hennar á landsvísu hefur minnkað og í gögnunum sést glöggt að þar munar mestu um minna fylgi í Reykjavík. Á landsbyggðinni er hún áfram vinsæl í könnuninni.

Í höfuðstaðnum hefur Katrín Jakobsdóttir sótt á. Hún gerir það einnig á Austurlandi en mjög lítillega, mælist með 20,7% fylgi, sem er það minnsta sem hún nýtur milli landssvæða.

Fylgi á ferð til annarra?


Það dugar henni þó til að ná öðru sætinu á Austurlandi því talsvert hefur fjarað undan Baldri Þórhallssyni. Hann mældist með 30% fyrir tveimur vikum, 25% í síðustu viku en nú með 18,8%.

Jón Gnarr á sem fyrr erfitt uppdráttar á Austurlandi, mælist með 7,9%. Aðrir frambjóðendur mælast með 16,5%, sem telst frekar mikið. Það er ekki brotið nánar niður í gögnunum. Erfitt er að kryfja það, nánar en vísbendingar eru um að fylgi sé að flytjast frá bæði Baldri og Jóni Gnarr á frambjóðendur í þeim hópi. Á landsvísu sést nú fylgissveifla með Höllu Tómasdóttur en hún er ekki tilgreind sérstaklega í þessum hluta könnunar Maskínu.

Nokkur atkvæði til eða frá geta einnig orsakað talsverðar sveiflur í prósentum milli frambjóðenda því svörin eru fá á Austurlandi. Það segir þó sína sögu um áreiðanleika könnunarinnar að þróun á svæðinu virðist eftir svipuðum línum og á landsvísu eða annars staðar á landsbyggðinni.

Hvert þeirra er númer tvö og hvert þeirra síðast?


Að þessu sinni spurði Maskína fleiri spurninga sem veita áhugaverða sýn inn í huga mögulegra kjósenda. Kannað var hvaða frambjóðenda fólk vildi næst á eftir þeim sem það vildi helst. Þar kemur Baldur Þórhallsson best út á Austurlandi, Jón Gnarr síðan með 23,8%. Þetta er jafnframt þeirra besta útkoma. Þar mælast aðrir með 23,1% fylgi en það er ekki nánar greint.

Katrín Jakobsdóttir fær þarna 17,2% og Halla Hrund 10,6%. Í tilfelli þeirrar síðarnefndu er það hennar slakasti árangur.

Þá var einnig spurt hvert þeirra fjögurra, sem notið hafa mest fylgis, fólk vildi síst vilja kjósa. Á Austurlandi varð Katrín Jakobsdóttir hæst þar, 41,9% vilja hana síst. Jón Gnarr er með 26,6% og Halla Hrund 21,9%, sem er hennar slakasta útkoma. Baldur mælist hins vegar með 9,6% sem er hans besti árangur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.