Hallormsstaðarskóli fjársveltur?
Fulltrúar í hreppsnefnd Fljótsdalshrepps hafa áhyggjur af því að skólinn sé fjársveltur. Þeir spyrja hvort skilyrði aðalnámsskrár séu uppfyllt.
Á fundi hreppsnefndar Fljótsdalshrepps, sem rekur skólann í félagi við Fljótsdalshérað, skýrði Jóhann Þorvarður Ingimarsson, fulltrúi hreppsins í skólanefnd, frá því að engin heimilisfræði væri kennd og tungumálakennsla væri takmörkuð.
Hann spurði hvort skilyrði aðalnámsskrár væru uppfyllt í ljósi fjársveltis skólans. Á fundi skólanefndar Hallormsstaðarskóla fór skólastjóri yfir hvernig tryggt væri að allir nemendur fengju lögboðna fræðslu á skólaferli sínum.
Á fundinum var einnig tekið fyrir uppsögn Helgu Magneu Steinsson, sem hefur verið í leyfi frá embætti skólastjóra á þessu skólaári. Íris Randversdóttir hefur sinnt stöðunni á meðan. Auglýst verður eftir framtíðarskólastjóra á næstunni.