Skip to main content

Hálslón einu sinni áður farið svo snemma á yfirfall

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. ágú 2023 13:55Uppfært 10. ágú 2023 13:56

Hálslón fór á yfirfall aðfaranótt mánudagsins í síðustu viku, 31. júlí. Þar með rennur jökulvatn niður farveg Jökulsár á Dal. Einu sinni áður hefur lónið farið þetta snemma á yfirfall.


Það var árið 2010 en þá byrjaði vatn að renna um yfirfallið á hádegi 28. júlí. Lónið var fyllt í fyrsta sinn árið 2007. Til samanburðar fór lónið ekki á yfirfall fyrr en 5. september í fyrra.

Lónið fer á yfirfall þegar vatnsyfirborðið hefur náð 625 metra hæð yfir sjávarmáli. Vatnið rennur um yfirfallsráð og steypist þar niður í gljúfrið fyrir neðan Kárahnjúkastífluna. Við það verður til fossinn hverfandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun hefur vatnsbúskapurinn á Hálslónssvæðinu verið afar hagfelldur í ár. Vetrarrennsli var óvenju mikið þannig að vatnshæðin fór ekki undir 600 metra í vor. Það hefur aðeins gerst einu sinni áður, vorið 2019.

Síðan tók við sögulega hlýr júní þannig að jökulbráð af Brúarjökli byrjaði óvenjusnemma með tilheyrandi hækkun vatnsyfirborðsins. Um mánaðamótin júní/júlí var vatnsyfirborð lónsins tíu metrum hærra en það hafði áður mælst á sama tíma og var jafnvel útlit fyrir að það yrði komið á yfirfall strax um miðjan júlí.

Veðurfarið breyttist hins vegar í byrjun júlí þannig að innrennslið fór úr 400-500 rúmmetrum á sekúndu niður í 200-300 rúmmetra.

Það að jökulvatnið fari niður farveg Jökulsár á Dal gerbreytir ásýnd Stuðlagils. Bæði flæðir þar nú um gráleitt jökulvatn en einnig er mun meira vatn þar á ferðinni. Laxveiði í Jöklu sjálfri er sömuleiðis sjálfhætt en áfram er haldið í hliðarám þeirra. Veiðin þar í sumar hefur gengið vel og voru 433 laxar komnir á land í gær.

Því má bæta við að vatnabúskapurinn á Suðurlandi hefur verið verri í sumar og vantar þrjá metra upp á að Þórsvatn fyllist en Hágöngulón er fullt. Á Norðurlandi vantar 40 sm. til að fylla Blöndulón.

Frá Stuðlagili í gær. Mynd: Sabine Lescher