Hannar og selur eigin línu af ungbarnaskóm

Magdalena Sydlowska Zrbrze, eða einfaldlega Magda, flutti til Eskifjarðar síðasta vor og hóf þar framleiðslu og sölu á barnavörum úr íslenskum efnivið.

„Ég þurfti að hafa eitthvað að dunda á meðan ég var ófrísk fyrir nokkrum árum og fór að prófa mig áfram í að sauma barnaskó og fannst þetta svo gaman og nærandi fyrir sálina að ég hélt þessu áfram.

Svo fluttum við úr stórri pólskri borg hingað til Eskifjarðar í fyrra. Það var erfið ákvörðun því þar er öll fjölskyldan og vinirnir, en mig langaði að breyta til og komast úr skarkala stórborgarinnar.

Að því leyti hentar Eskifjörður og Austurland allt mjög vel og hér hef ég einhvern veginn miklu meiri tíma til dundurs. Eini mínusinn finnst mér vera hvað sólin skín lítið og ég sakna þess að heiman,“ segir Magda.

Hún selur vörur sínar undir merkjum Mszydly. Hennar aðalsmerki hafa verið barnaskór, fóðraðir með sauðskinni og ull. Þá hönnunarlínu kallar hún Lamb.

„Mig langar mjög mikið til að framleiða úr efnivið héðan því mér finnst það einhvern veginn tilheyra því að búa hér. Mig vantar fleiri sambönd en er að kaupa af einum aðila nú þegar og úr því vinn ég þessa Lamb-línu af skóm.

Ég er líka enn að komast inn í kúltúrinn hér og tískustraumana og hvaða efnivið héðan er gott að vinna með svo það er margt í deiglunni. Hver veit nema ég fari einn daginn að framleiða fleira en barnaskó enda með fleiri hugmyndir í kollinum.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.