Skip to main content

Haraldur Gústafsson Íþróttamaður ársins hjá Bogfimisambandinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. nóv 2023 09:12Uppfært 28. nóv 2023 09:18

Haraldur Gústafsson bætti enn einni fjöður í íþróttaferil sinn um helgina þegar hann var loks, fyrsta sinni, valinn Íþróttamaður ársins hjá Bogfimisambandi Íslands. Það í viðbót við að vera valinn sveigbogamaður ársins hjá sama sambandi.

Haraldur, sem ávallt hefur keppt fyrir hönd Skotveiðifélags Austurlands (SKAUST] hefur um margra ára skeið verið einna fremstur í flokki í bogfimi á landsvísu og var vegna frábærs árangurs í greininni valinn Íþróttamaður UÍA fyrir tveimur árum síðan. Hefur hann unnið til allnokkurra Íslandsmeistaratitla og veitt köppum á heimsvísu góða keppni í heimsbikarmótaröð Alþjóða bogfimisambandsins. Þykja tíðindi með tilliti til hversu oft hann hefur unnið sína aðalgrein sem er sveigbogfimi og staðið sig vel á erlendum mótum lengi vel að þetta skuli vera fyrsta sinni sem hann er valinn Íþróttamaður ársins í sambandinu.

Þann titil hlýtur sá bogfimimaður sem flestum stigum nær á ársgrundvelli en þar endaði Haraldur árið með alls 3,92 stig meðan sá sem varð í öðru sætinu var töluvert á eftir með 3,67 stig. Þessum árangri náði Haraldur þrátt fyrir að hafa misst af bæði Evrópu- og heimsmeistarmóti í bogfimi. Því fyrrnefnda var aflýst vegna jarðskjálftanna í Tyrkland en Haraldur veiktist rétt áður en HM átti að hefjast.