Háskóli Íslands skoðar að setja upp rannsóknarsetur í gamla barnaskólanum á Eskifirði
Hugsanlegt er að Háskóli Íslands setji upp rannsóknarsetur í hluta hins endurnýjaða gamla barnaskóla á Eskifirði en það verk er að nálgast lokastig framkvæmda.
Ekkert er fast í hendi samkvæmt upplýsingum Austurfréttar heldur er um þreifingar að ræða að svo stöddu. Rektor Háskóla Íslands mun funda vegna þessa með bæjarstjóra Fjarðabyggðar í næstu viku en hugmyndin gengur út á að þar muni fara fram rannsóknir á sviði menntavísinda ef af verður. Málið var reyfað á síðasta fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar í vikunni.
Talsvert hefur verið rætt um framtíðarhlutverk skólahússins gamla síðustu misserin en það hefur verið fyrir stórátak Hollvinafélags hússins með aðstoð sveitarfélagsins Fjarðabyggðar sem það hefur verið endurnýjað nánast frá grunni.
Fyrir utan að húsið hefur menningarsögulegt gildi og er formlega friðað þá stendur það á áberandi og skemmtilegum stað í bænum og margir bæjarbúar séð fyrir sér að upplagt væri að setja þar upp einhvers konar þjónustu á borð við kaffihús. Húsið er þó töluvert stórt og á tveimur hæðum svo meira þarf þar til. Hefur lengi verið áhugi á aðkomu stofnana á borð við Háskóla Íslands varðandi nýtingu hússins til framtíðar.
Skýrast mun síðar í sumar hvort rannsóknarsetur verður sett upp í þessari merku byggingu en hlutaðeigendur sem rætt hefur verið við eru almennt bjartsýnir á að slíkt verði að veruleika.