Skip to main content

Hefðbundin vetrarþjónusta í morgun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. jún 2024 10:55Uppfært 06. jún 2024 11:04

Leiðin yfir Möðrudalsöræfi var opnuð í morgun og reynt er að gera Fjarðarheiðina sem besta enda fjöldi bíla um borð í Norrænu. Von er á talsverði snjókomu til fjalla í kvöld og ekki útlit fyrir að hlýni að ráði á Austurlandi fyrr en á þriðjudag.


Þær veðurviðvaranir sem í gildi hafa verið á Austurlandi síðan seinni part mánudags féllu úr gildi í morgun. Gul viðvörun tekur gildi klukkan 16:00 í dag og gildir fram til tvö í nótt á Austurlandi en engin viðvörun er fyrir Austfirði.

Von er á nýjum snjókomubakka yfir landið á þessum tíma. „Það kemur nýr snjókomubakki með slyddu eða snjókomu eins og verið hefur. Hann gengur yfir snemma í nótt,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Köld helgi


Útlit er fyrir nokkuð samfellda úrkomu í kvöld og von á að snjólínan færist neðar. Ekki er ólíklegt að hvítt verði í byggð, hið minnsta inn til landsins. Út við ströndina verður bæði hlýrra og minni úrkoma. Áfram er útlit fyrir rigningu eða slyddu á morgun en engin viðvörun hefur verið gefin út enn enda úrkoman ekki mikil.

„Það kemur annað úrkomusvæði inn yfir Norðurland á föstudagskvöld sem verður yfir Austurlandi aðfaranótt laugardags. Það gæti verið minni háttar væta á laugardag og slyddukennt á fjallvegum en trúlega þurrt eftir það.

Á sunnudag og mánudag virðist vera hæg norðanhátt en þurrt með hita ekki mikið hærri en fimm gráður. Það er ekki fyrr en á þriðjudag sem vindur snýst til suðurs og þá kemur sumarið aftur.“

Barist við Fjarðarheiðina


Leiðin yfir Möðrudalsöræfi var opnuð upp úr klukkan sjö í morgun og hafði þá verið lokuð frá mánudagskvöldi. Andri Hrafn Karlsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ, segir að frosinn krapi hafi verið á veginum en nokkuð vel gengið að ryðja.

Eitt helsta verkefni Vegagerðarinnar í dag er Fjarðarheiði. Norræna kom til Seyðisfjarðar rétt fyrir klukkan tíu í morgun, um einum og hálfum tíma á eftir áætlun vegna óveðursins. Á fjórða hundrað ökutækja á sumardekkjum voru um borð og hafa farþegar verið hvattir til að sýna þolinmæði enda von á að færðin skáni þegar líður á daginn með hlýnandi veðri. Að sama skapi virðast þeir sem áttu bókað með henni hafa náð á áfangastað.

„Þetta hefur verið hefðbundin vetrarþjónusta hjá okkur í morgun. Við byrjuðum að moka klukkan sex. Seinkunn ferjunnar hjálpaði okkur því það gefur okkur meiri tíma til að laga færðina," segir Andri Hrafn.

Á Möðrudalsöræfum, Fjarðarheiði og Vopnafjarðarheiði er krapi og skafrenningur. Hálkublettir eru á Vatnsskarði, Fagradal og Öxi. Hjá Landsbjörgu fengust þær upplýsingar í morgun að ekki hefði þurft á aðstoð björgunarsveita að halda í gærkvöldi, nótt eða morgun. Í gær brotnaði rúða í verslun á Reyðarfirði vegna aðstoðahlutar sem fauk í hana. Umferðaróhapp varð á Fagradal í morgun samkvæmt dagbók lögreglunnar.

Mynd úr safni.