Hefja leit að nýjum framkvæmdastjóra Fiskeldis Austfjarða
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. sep 2023 09:27 • Uppfært 11. sep 2023 09:31
Guðmundur Gíslason, sem verið hefur framkvæmdastjóri Ice Fish Farm eða Fiskeldis Austfjarða frá byrjun, hefur tilkynnt stjórn félagsins að hann hyggist láta af störfum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu sem birt var í norsku kauphöllinni í morgun, en þar er félagið skráð á almennan hlutabréfamarkað.
Þar kemur fram að Guðmundur muni ekki yfirgefa félagið heldur ætli að einbeita sér að sölumálum.
„Að hafa verið framkvæmdastjóri Fiskeldis Austfjarða hefur verið magnað ferðlag ásamt framúrskarandi samstarfsfólki. Vöxturinn hefur verið hraður undanfarin 12 ár á nýrri og sjálfbærri iðngrein. Ég hlakka til að halda áfram að vinna fyrir og styðja við fyrirtækið í að þróa markaði þess,“ er haft eftir Guðmundi þar.
„Guðmundur hefur verið sannur frumkvöðull og leiðtogi Fiskeldis Austfjarða frá árinu 2012. Á þeim tíma hefur fyrirtækið farið úr því að vera hugmynd yfir í að vera leiðandi í nýjum og sjálfbærum iðnaði á Íslandi. Ég er mjög þakklátur fyrir framlag hans og hlakka til áframhaldandi samstarfs,“ segir Asle Rønning, stjórnarformaður félagsins.
Fyrirtækið hefur nú leit að nýjum framkvæmdastjóra. Viðbúið er að það taki nokkra mánuði. Guðmundur mun gegna starfi framkvæmdastjóra þar til eftirmaður hans hefur verið ráðinn.
Ice Fish Farm rekur allt það fiskeldi sem stundað er á Austfjörðum. Starfsemi þess hófst í Berufirði en síðar var bætt við kvíum í Fáskrúðsfirði. Fyrir tveimur árum sameinaðist það Löxum sem eru með eldi í Reyðarfirði.