Hefja söfnun fyrir nýjum björgunarbát fyrir Eski- og Reyðarfjörð
Mikilvægi björgunarsveita landsins verður seint ofmetið en til að þær sveitirnar geti sinnt leit og björgun með sem allra bestum hætti þarf reglulega að endurnýja tæki og tól. Það er einmitt á stefnuskrá björgunarsveitarinnar Brimrúnar á Eskifirði sem hafið hefur söfnun fyrir nýjum björgunarbát en björgunarsveitin sú fagnar 60 ára afmæli á næsta ári.
Núverandi bátur sveitarinnar, Alfreð Guðnason, nálgast 35 ára aldurinn og hefur lengi vel verið eini björgunarbáturinn fyrir bæði Eskifjörð og Reyðarfjörð. Þó sá hafi sannarlega staðið fyrir sínu öll þau árin, ekki hvað síst við strand flutningaskipsins Akrafells við Vattarnes fyrir rúmum tíu árum síðan, hefur skipaumferð aukist jafnt og þétt frá þeim tíma og tími auk þess sem tækninni hefur mjög fleygt fram síðan árið 1990.
Þörfin sennilega aldrei verið meiri á nýjum bát með sem allra nýjustu tækni að sögn Kristófers Mána Gunnarssonar, formanns Brimrúnar.
„Þörfin er orðin afskaplega brýn enda tæknilega enginn sérhannaður björgunarbátur til staðar í Eski- og Reyðafirði. Skipaumferð hér aukist stórum og engin spurning að við þurfum að eiga hér góðan bát til björgunar með allri tækni sem getur auðveldar leit og björgun hvers konar.“
Kristófer segir að góður nútímalegur bátur sé nú falur hjá björgunarsveitinni Ársæli í Reykjavík og þegar hafa verið samskipti á milli aðilanna um hugsanleg kaup á þeim báti.
„Við höfum ekkert í hendi enn með fjárstuðning frá nokkrum aðila en við í björgunarsveitinni erum að undirbúa okkur til að fara fljótlega til fyrirtækja og stofnanna hér á svæðinu og óska eftir aðstoð í þessu verkefni. Það dylst engum sem til þekkir að brýn þörf er að góðum og helst lokuðum björgunarbát á þessu svæði og við í sveitinni erum staðráðnir í að gera kaup á nýjum bát að veruleika eigi síðar en á afmælisárinu 2026. Þetta skal takast hjá okkur og annað kemur ekki til greina. En varðandi þennan ákveðna bát tel ég víst að hægt verði að ná einhverri lendingu með kaupin jafnvel þó við náum ekki að safna fjármunum að fullu. Við hljótum að geta greitt eitthvað inn á bátinn og gert samning um afganginn þegar fram líða stundir.“
Kristófer, fyrir hönd björgunarsveitarinnar, óskar stuðnings frá öllum sem eitthvað eiga aflögu, og bendir á að Brimrún sé á svokallaðri almannaheillaskrá sem þýðir tiltekinn skattaafslátt fyrir einstaklinga sem leggja þeim lið. Hafi fólk áhuga er hægt að styrkja söfnun Brimrúnarmanna með innlögn á reikning 166-05-7315, kennitala 710186-1389.
Björgunarbáturinn Sjöfn í eigu björgunarsveitarinnar Ársæls í höfuðborginni en það er einmitt báturinn sem Brimrúnarmenn á Eskifirði hafa hafið söfnun fyrir. Mynd skjáskot