Hefur sex mánuði til að finna lausn á vanda Sundabúðar á Vopnafirði
Heilbrigðisráðherra hefur nú sex mánuði til að koma til móts við Vopnafjarðarhrepp með áframhaldandi rekstur hjúkrunarheimilisins Sundabúðar.
Eins og fram hefur komið ákvað sveitarstjórn Vopnafjarðar í síðustu viku að segja upp samningi við Sjúkratryggingar Íslands en viðvarandi hallarekstur hefur verið á Sundabúð nánast allar götur frá árinu 2013 þegar hreppurinn tók við rekstrinum. Uppsafnaðu halli síðan þá nemur rétt tæpum 400 milljónum króna og sveitarfélagið hefur reglulega þurft að leggja heimilinu til fé þó ábyrgð málaflokksins sé á hendi ríkisins. Fram kemur í bókunar sveitarstjórnar frá síðustu viku að daggjaldatekjur Sundabúðar að meðtöldu smæðarálagi og í fullri nýtingu dugi ekki fyrir kostnaði við lágmarksmönnun
Uppsögn samningsins við Sjúkratryggingar tók formlega gildi um liðin mánaðarmót en uppsagnarfrestur eru sex mánuðir alls eða fram til 1. maí næstkomandi. Fyrir þann tíma þarf Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, að ákveða hvað gera skuli vegna málsins. Vopnafjarðarhreppur hefur þegar átt samtal við Heilbrigðisstofnun Austurlands um hvort sú stofnun hafi áhuga að taka við rekstrinum og segir Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn, þau samtöl hafa verið mjög jákvæð. Það sé samt á endanum ráðherrann sem þurfi að taka ákvörðun um hvað gera skuli.
Aðspurður um stöðuna segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, samtöl vissulega hafa átt sér stað vegna þessarar stöðu. Stofnunin muni vitaskuld fara eftir því sem ráðherra ákveður í málinu en vill að öðru leyti ekki tjá sig.